Lögreglan eyddi gögnum af farsíma

Lögreglan eyddi upptöku af aðgerðum hennar við Suðurlandsbraut í Reykjavík á miðvikudaginn var. Atvikið átti sér stað klukkan 16:45 eftir að mótmælum atvinnubílstjóra lauk við Rauðavatn. Sigmar Magnússon bílstjóri hefur kært lögreglumann sem hrifsaði til sín farsíma hans.

Sigmar segir að hann hafi staðið hjá og myndað slagsmál tveggja manna sem voru honum með öllu óskyldir er lögregluna bar að garði. „Þeir voru vígalegir í samfestingum og greinilega að koma beint frá aðgerðunum við Rauðavatn," sagði Sigmar í samtali við Fréttavef Morgunblaðsins.

Lögreglan tók farsíma Sigmars með valdi eftir að hann hafði neitað tvisvar að afhenda símann. „Sérsveitarmaður sló síðan til mín þegar ég fór fram á að fá símann afhentan aftur svo að Ray-Ban gleraugun duttu í götuna og brotnuðu," sagði Sigmar.

Sigmar sagði að lögreglan hefði afhent honum símann eftir að hann hafði gefið þeim upp nafn og kennitölu en þá var lögreglan búin að eyða myndskeiðinu út af honum.

 „Ég spurði lögreglumanninn um númerið á honum en hann sagðist ekki vera með númer og sagði að það væru ekki allar löggur með númer, sem er lygi. Þá spurði ég hann um nafn en hann svaraði að það kæmi mér ekkert við," sagði Sigmar sem sagðist hafa fengið góða þjónustu hjá lögreglunni í morgun er hann fór og kærði atvikið.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert