Telur að ríkisstjórnin eigi að segja af sér

Guðni Ágústsson.
Guðni Ágústsson. mbl.is/G.Rúnar

Guðni Ágústsson, formaður Framsóknarflokksins, sagði á Alþingi í dag, að hann teldi að ríkisstjórnin ætti að segja af sér vegna þeirrar stöðu, sem komin er upp í efnahagsmálum. Geir H. Haarde, forsætisráðherra, sagði að verið væri að glíma við innfluttan verðbólguvanda og svo virtist sem Guðni skildi ekki eðli þess vanda.

Guðni sagði að því miður að margt væri að ganga illa í íslensku samfélagi um þessar mundir. Verðbólgan væri komin í 12% og engin ríkisstjórn hefði í 20 ár verið jafn máttvana frammi fyrir efnahagsvandanum sem við blasir.

Sagði Guðni, að allt sem framsóknarmenn hefðu sagt mánuðum saman væri að koma fram. „Það er alvarlegt efnahagsástand á Íslandi," sagði Guðni og bætti við að stjórnvöld hefðu horft blindum augum til Seðlabankans eins og hann hefði verið kjörinn til að stjórna efnahagsmálum.

Hann sagði að ríkisstjórnin sjálf yrði að bretta upp ermar við þessar alvarlegu aðstæður. En þetta hefði gengið svona mánuðum saman og ekkert af því sem forsætisráðherra hefði sagt hefði gengið eftir. „Ég tel að þessi ríkisstjórn eigi að segja af sér," sagði Guðni.

Geir H. Haarde sagði, að aðeins hefði vantað í ræðu Guðna, að hann byðist til að taka við stjórnartaumunum. Geir sagði, að verðbólgutölurnar sem birtust í morgun, væri slæmar og verri en búist var við. En það hefði legið fyrir að þjóðin muni ganga í gegnum verðbólgukúf og líklegt væri, að hann gangi hraðar yfir en ætlað var og verðbólgan muni minnka hratt á næstu mánuðum.

Geir sagði, að heimsmarkaðsverð á hinum og þessum nauðsynjum hefði verið að hækka í erlendum gjaldmiðli og jafnframt hefði gengi krónunnar  lækkað mjög hratt og mikið á undanförnum vikum. Sú breyting væri að skila sér hraðar inn í verðlagið en venja sé til, sennilega vegna þess hve snögg gengislækkunin. Það er líka hugsanlegt að einhverjir séu í skjóli þeirra breytinga að hækka verðlag að ástæðulausu. „Gegn því þurfum við að vera á verði," sagði Geir og vísaði til aðgerða sem viðskiptaráðherra hefur boðað.

Guðni sagði að viðskiptaráðherra ætti að fara einn fram á völlinn að berjast við verðbólguna með fjórar milljónir að vopni. „Hvílík háðung," sagði hann.  Geir svaraði, að stundum hefði hann á tilfinningunni, að Guðni skildi ekki alveg eðli þeirra mála, sem verið væri að fjalla um. Verið væri að glíma við innfluttan verðbólguvanda og aðstæður sem enginn sá fyrir þegar kjarasamningar voru gerðir í febrúar. Það væri verkefni allra að takast á við hinar breyttu aðstæður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert