Ker greiði bætur vegna samráðs

Hæstiréttur hefur dæmt Ker til að greiða Sigurði Hreinssyni 15 þúsund krónur í bætur vegna ólöglegs samráðs olíufélaganna á sínum tíma. Sigurður taldi sig hafa orðið fyrir tjóni við kaup sín á bensíni hjá Keri á árunum 1995 til 2001.

Í málinu nú var einungis tekist á um kröfu Sigurðar um að skaðabætur yrðu ákveðnar að álitum. Í dómi Hæstaréttar segir að ágreiningslaust sé að með samráðinu hefði Ker brotið gegn 10. gr. þágildandi samkeppnislaga. Af gögnum málsins sé ljóst að samráðið hefði meðal annars tekið til verðlagningar á bensíni.

Segir Hæstiréttur, að Ker hafi ekkert fært fram í málinu sem staðið gæti í vegi þeirri ályktun að tilgangur samráðsins hefði verið að hækka tekjur félagsins með því að selja bensín á hærra verði en annars hefði verið. Þá hafi Keri ekki tekist að sýna fram á að slíkur ágóði hefði ekki í reynd hlotist af samráðinu. Var niðurstaða héraðsdóms um fjárhæð skaðabótanna staðfest.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert