Allra vilji að leysa málið

Hjúkrunarfræðingar koma af fundi í gærkvöldi.
Hjúkrunarfræðingar koma af fundi í gærkvöldi. mbl.is/Frikki

Guðlaugur Þór Þórðarson heilbrigðisráðherra er mjög ánægður með samkomulagið við hjúkrunarfræðingana og geislafræðingana á Landspítalanum, sem náðist í gær. 

„Þetta er ánægjuleg niðurstaða,“ segir hann og bætir við að það sé allra vilji að leysa málið á farsælan hátt. Margar leiðir séu að settu marki og mikilvægt sé að tekið verði tillit til sjónarmiða og reynslu starfsmannanna.

Forstjórinn fagnar góðri niðurstöðu

Starfandi forstjórar Landspítala lýstu því yfir eftir mikil fundahöld í gærkvöldi, að það vinnufyrirkomulag sem öðlast átti gildi í dag, 1. maí, „er ekki til umræðu lengur“. Unnið verður nú að því í samráði allra aðila að gera vinnuskipulag í takt við vinnutilskipun ESB.

„Það var gengið að öllum okkar kröfum, þessu breytta vaktakerfi var fleygt út af borðinu, kerfi sem við vildum alls ekki taka upp,“ segir Elín Ýrr Halldórsdóttir, talsmaður skurðhjúkrunarfræðinga. „Við lítum á þetta sem fullnaðarsigur.“

Björn Zoëga, annar forstjóri Landspítalans, fagnar því að góð niðurstaða hafi fengist. Hann segir að stjórnendur spítalans hafi getað skýrt nánar fyrir hjúkrunarfræðingunum og geislafræðingunum hvað liggi að baki tillögunum sem lagðar hafi verið fram á mánudag, viðræðurnar hafi tekið sinn tíma en tíminn verið vel nýttur og allir gengið ánægðir frá borði.

Geislafræðingar í óvissu

Geislafræðingar á Landspítalanum ákváðu í gær að fresta uppsögnum sínum um einn mánuð. Fjörutíu af 52 geislafræðingum á myndgreiningasviði LSH höfðu sagt upp störfum frá miðnætti í gær vegna fyrirhugaðra breytinga á vaktafyrirkomulagi.

Í ljósi þess að stjórnendur LSH höfðu í gærkvöldi lýst því yfir að ekki yrði af vaktabreytingunni og að í þeirri yfirlýsingu kom ekki fram til hvaða hópa sú ákvörðun næði, sagði Katrín Sigurðardóttir, talsmaður geislafræðinga, að um þetta yrði m.a. rætt á fyrsta fundi með yfirmönnum sem boðaður hefði verið á morgun, föstudag.

„Þessi ákvörðun stjórnar spítalans hlýtur að sjálfsögðu að vera það fyrsta sem við tölum um,“ sagði Katrín en hún hafði ekki fengið upplýsingar um hvort ákvörðunin næði einnig til geislafræðinga er Morgunblaðið ræddi við hana um miðnætti í gær. Hún sagði geislafræðinga ósátta við vaktabreytingarnar og að ekki hefði komið til greina af þeirra hálfu að taka þær upp á þeim nótum sem til stóð.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert