Hundruð gætu krafið olíufélögin um bætur

Steinar Þór Guðgeirsson hrl., sem sótti málið gegn Keri, segir að búast megi við að fjöldi fólks höfði samskonar mál á hendur Keri í ljósi niðurstöðu Hæstaréttar í gær.

Steinar segir þær 15.000 kr. sem Sigurði Hreinssyni flutningabílstjóra voru dæmdar í bætur algjöra lágmarksupphæð og mestu skipti það fordæmi sem fékkst með viðurkenningu Hæstaréttar á skaðabótaskyldu olíufélaganna.

Verður í framhaldinu skoðaður sá möguleiki að vinna ítarlegri matsgerðir sem styðja myndu kröfur um bótafjárhæðir sem gætu orðið mun hærri en sú upphæð sem dómstólar komust að niðurstöðu um.

Á Lögfræðistofu Reykjavíkur, sem annaðist málið, eru þegar gögn um 200 einstaklinga sem átt gætu skaðabótakröfu á hendur olíufélögunum vegna verðsamráðs.

Jóhannes Gunnarsson, formaður Neytendasamtakanna, segir von á að sá hópur eigi eftir að stækka nú þegar niðurstaða dómsins liggur fyrir.

„Þetta er mikill sigur og tímamótadómur,“ segir Jóhannes. „Sennilega er þetta fyrsta málið í Evrópu þar sem neytanda eru greiddar bætur vegna samkeppnislagabrota.“

Spurður um framhaldið segir Steinar Þór næstu skref að senda út stefnur og athuga hvort hægt er að semja um þau mál sem fyrir liggja. Ekki eru leiðir í íslensku réttarfari sem leyfa að höfðað sé hópmál og yrði því að höfða mál á grundvelli hverrar skaðabótakröfu ef ekki næst að semja um bætur.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert