Nefnd kannar starfsemi vist- og meðferðarheimila

Breiðavík.
Breiðavík.

Nefnd, sem skipuð var í fyrra til að kanna starfsemi Breiðavíkurheimilisins á árunum 1950-1980 hefur fengið nýtt erindisbréf og hefur verið falið að taka með almennum hætti afstöðu til þess hvaða stofnanir falla undir gildissvið laga, sem sett voru um nefndina.

Nefndin afhenti skýrslu um Breiðavík fyrr á þessu ári og þar voru meðal annars settar fram tillögur um framhald á könnunum nefndarinnar. Á þeim grundvelli hefur forsætisráðherra nú afhent nefndinni nýtt erindisbréf þar sem kveðið er á um framhald á störfum hennar.

Er nefndinni nú falið að taka með almennum hætti afstöðu til þess hvaða stofnanir falla undir gildissvið laga nr. 26/2007 og afmarka nánar, ef ástæða þykir til, það tímabil sem nefndin beinir almennt sjónum sínum að, m.a. í ljósi gildandi barnaverndarlöggjafar á hverjum tíma. Þá ber nefndinni að leggja mat á hvort og þá hvaða stofnanir skuli kanna sérstaklega með þeim hætti sem kveðið er á um í lögum nr. 26/2007.

Við slíkt mat skal nefndin hafa til hliðsjónar hvort tilefni sé til könnunar í ljósi fyrirliggjandi upplýsinga, t.d. í formi frumgagna eða frásagna, sem fram hafa komið frá fyrrverandi vistmönnum, starfsmönnum eða öðrum. Eins ber nefndinni að líta til þess hversu líklegt sé að könnun þjóni tilgangi sínum, m.a. vegna þess hversu langt sé um liðið.

Nefndin skal skila áfangaskýrslum um könnunina til forsætisráðherra fyrir 1. júlí 2009 og 1. júlí 2010. Nefndin skal síðan ljúka störfum sínum og skila lokaskýrslu um könnun sína til forsætisráðherra fyrir 15. apríl 2011.

Samkvæmt erindisbréfinu ákveður nefndin hvort fjallað verði um einstakar stofnanir sameiginlega eða hverja um sig og þá hvort umfjöllun komi fram í áfangaskýrslum eða í heildarskýrslu nefndarinnar við lok starfa hennar.

Á fundi nefndarinnar í síðustu viku var tekin sú ákvörðun að eftirtaldar stofnanir skyldu í fyrstu sæta könnun nefndarinnar:

Vistheimilið Kumbaravogur
Vistheimilið Knarrarvogur
Heyrnleysingjaskólinn
Stúlknaheimilið Bjarg
Heimavistarskólinn Reykjahlíð
Heimavistarskólinn Jaðar
Upptökuheimili ríkisins / Unglingaheimili ríkisins
Uppeldisheimilið Silungapollur

Gert er ráð fyrir því að í fyrstu verði aflað tiltækra gagna í vörslum stjórnvalda um starfsemi þessara stofnana. Í framhaldinu mun nefndin taka ákvarðanir um frekari aðgerðir til upplýsingaöflunar, meðal annars í formi munnlegra framburða.

Nefndin hefur á þessu stigi ekki ákveðið hvort fjallað verði um ofangreindar stofnanir sameiginlega eða hverja um sig í áfangaskýrslum eða í heildarskýrslu nefndarinnar.

Nefndina skipa Róbert R. Spanó, prófessor við lagadeild Háskóla Íslands, formaður,  Jón Friðrik Sigurðsson, dósent við læknadeild Háskóla Íslands og forstöðusálfræðingur á Landspítalanum,  Sigrún Júlíusdóttir, prófessor í félagsráðgjöf við Háskóla Íslands og  Ragnhildur Bjarnadóttir, dósent í sálfræði við Kennaraháskóla Íslands. Framkvæmdastjóri nefndarinnar er Þuríður B. Sigurjónsdóttir lögfræðingur.

 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert