Tignargestir á Íslandi

Fjöldi blaða- og fréttamanna, auk ljósmyndara, fylgdist með þegar Friðrik krónprins Danmerkur og eiginkona hans Mary krónprinsessa komu til Bessastaða í morgun. Heimsókn þeirra stendur yfir í þrjá daga, en þau eru hér á landi í boði forseta Íslands Ólafs Ragnars Grímssonar og Dorrit Moussaieff forsetafrúar.

Hópurinn steig út á tröppurnar og stillti sér upp fyrir ljósmyndarana og bauðst Dorrit við það tækifæri til að lána Friðriki sólgleraugun sín, enda var einstaklega bjart og fallegt á Bessastöðum.

Forseti Íslands, Ólafur Ragnar, sagði það einstakt ánægjuefni að taka á móti dönsku tignargestunum og sagði það í fyrsta sinn síðan í heimsstyrjöldinni síðari að hingað til lands kæmu krónprins og krónprinsessa Danmerkur.

Friðrik og Mary slógu á létta strengi á fundi með fréttamönnum og sagðist Friðrik mjög ánægður með að vera kominn til Íslands. Hann sagðist hafa komið til landsins um fimm sinnum áður en aldrei haft tækifæri til að kynna sér land og þjóð.

Hann kvað dagskrána sem biði þeirra hjóna mjög spennandi, en þau munu heimsækja skóla, kynna sér jöklasetur, glöggva sig á menningarviðburðum, skoða orkuver, fara í reiðtúr og aka til Þingvalla, svo fátt eitt sé nefnt.

Friðrik sagði sæmd í því að feta í fótspor forfeðra sinna – dönsku konunganna – sem sótt hefðu Ísland heim og sagði hann samvinnu og samskipti Íslands og Danmerkur jafn mikilvæg og áður. Heimsókn Friðriks og Mary lýkur áttunda maí.

mbl.is

Bloggað um fréttina