Fyrsti þáttur í lengra ferli

„Þetta er fyrsti þáttur í lengra ferli. En ég held að þetta sé afar mikilvægur þáttur,“ segir Davíð Oddsson seðlabankastjóri varðandi þá gjaldmiðlaskiptasamninga sem Seðlabanki Íslands hefur gert. Hvað varðar viðbrögð erlendis frá segir Davíð að talað sé um þessa aðgerð sem „jákvæða aðgerð.“

Davíð bendir hins vegar á að of snemmt sé að fullyrða um hver áhrif aðgerðanna séu. Margt geti breyst á markaði á skömmum tíma. 

Fram hefur komið í norrænum fjölmiðlum að samningarnir séu neyðaraðstoð við Seðlabanka Íslands. Þessu vísar Davíð alfarið á bug.

Hann bendir á í yfirlýsingum seðlabankanna þriggja, sem sé samhljóða að meginefninu til,  komi fram að það sé vilji bankanna að styrkja svigrúm og viðbúnaðarmöguleika Seðlabanka Íslands.

Frekari aðgerðir í undirbúningi

Geir H. Haarde, forsætisráðherra, segir í yfirlýsingu, að tvíhliða gjaldmiðlaskiptasamningar milli seðlabanka Danmerkur, Noregs, Svíþjóðar og Íslands séu mikilvægt skref til að styrkja aðgang Seðlabankans að erlendu lausafé og efla traust á íslenskt fjármálakerfi og efnahagslíf.  Frekari aðgerðir til að styrkja erlenda lausafjárstöðu Seðlabankans séu í undirbúningi.

Seðlabankinn tilkynnti um samningana í dag og segir þá vera viðbúnaðarráðstöfun og veiti Seðlabanka Íslands aðgang að evrum gerist þess þörf. Hver samningur um sig veitir aðgang að allt að 500 milljónum evra, jafnvirði 60 milljarða króna, gegn íslenskum krónum. Seðlabanki Íslands getur dregið á samningana þegar og ef nauðsyn krefur.

Mikilvægur áfangi

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir utanríkisráðherra segir tvíhliða gjaldmiðlaskiptasamninga milli seðlabanka Danmerkur, Noregs, Svíþjóðar og Íslands mikilvægan áfanga til að efla traust á íslensku fjármálakerfi og tryggja fjármálastöðugleika í landinu. Ríkisstjórn og Seðlabanki hafa undanfarið unnið hörðum höndum að margþættum aðgerðum til að styrkja stoðir fjármálakerfisins og koma réttum og skýrum skilaboðum á framfæri til þeirra sem fylgjast með á erlendri grundu. Undirstöður íslensks fjármálakerfis eru sterkar og samningarnir við hina norrænu banka styrkja þær enn frekar.

Unnið er að skipulagsbreytingum hér heima sem ætlað er að auka efnahagslegan stöðugleika. Þá liggur fyrir að félagslegt hlutverk Íbúðalánasjóðs verður eflt og gert skýrara en samkeppnisskilyrði á húsnæðismarkaði um leið jöfnuð. 

Ofangreindir samningarnir auka verulega aðgang Seðlabankans að erlendu lausafé og mun bankinn auka þann aðgang enn frekar á næstunni.Geir segir í yfirlýsingu, að ríkisstjórnin og Seðlabanki Íslands hafi að undanförnu undirbúið margvíslegar aðgerðir til að styrkja aðgang Seðlabankans að erlendu lausafé og efla traust á íslenskt fjármálakerfi og efnahagslíf. Gjaldmiðlaskiptasamningarnir séu mikilvægt skref í átt að ofangreindum markmiðum.

Fréttatilkynningar frá þeim seðlabönkum sem hlut eiga að máli er að finna á heimasíðum þeirra:

Danmarks Nationalbank

Norges Bank

Sveriges Riksbank

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert