Verð á matvörum 64% hærra en í ESB

Verð á matvörum er að jafnaði 64% hærra á Íslandi en að meðaltali í ESB-ríkjum. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Samkeppniseftirlitsins þar sem fjallað er um  viðskiptasamninga birgja og matvöruverslana og annað samstarf fyrirtækja á matvörumarkaði. 

Í skýrslunni segir að allmargir samningar birgja og matvöruverslana feli í sér ákvæði sem kunni að raska samkeppni neytendum til tjóns. Þá bendir könnun Samkeppniseftirlitsins til þess, að forverðmerkingar birgja á matvörum takmarki verðsamkeppni milli matvöruverslana.  Verðmunur á þessum vörum milli verslana er margfalt minni en eðlislíkra vara sem ekki eru forverðmerktar.

Samkeppniseftirlitið beinir þeim tilmælum til birgja og matvöruverslana að ganga úr skugga um að samningar þeirra feli ekki í sér samkeppnishindranir.  Þá vekur stofnunin athygli á nokkrum atriðum í samningum sem geta falið í sér samkeppnishindranir og gefur leiðbeiningar um það hvers konar samningsákvæði geta hugsanlega raskað samkeppni á matvörumarkaði.

Samkeppniseftirlitið mun fylgja því eftir að samningar feli ekki í sér brot á samkeppnislögum. Fyrirtæki sem verða uppvís að  samkeppnislagabrotum mega vænta þess að þurfa að sæta viðurlögum.

Aðdragandi skýrslunnar er að Samkeppniseftirlitið hefur að undanförnu aflað og farið yfir fjölda viðskiptasamninga birgja og matvöruverslana og annarra endursöluaðila í því skyni að meta áhrif þeirra á samkeppni á matvörumarkaði. Beindist gagnaöflunin að um 70 birgjum. Felur skýrslan í sér lok þeirrar athugunar. Í skýrslunni er einnig fjallað um verðlag á matvörum og hagsmunagæslu samtaka fyrirtækja á matvörumarkaði.  

Tilkynning Samkeppnisstofnunar 

Skýrslan í heild

mbl.is

Bloggað um fréttina