Um 20 fíklar látist frá börnum

Um tuttugu fíklar, sem Barnavernd Reykjavíkur hefur haft afskipti af, hafa látist frá börnum sínum síðustu tólf mánuði. Nær eingöngu er um að ræða mæður og ávallt forsjárforeldri, þó börnin hafi í einhverjum tilvikum verið í fóstri.

Við slíkar aðstæður fær hitt foreldrið, í þessum tilvikum nær eingöngu feður, sjálfkrafa forsjá barna sinna, hafi tilkynningar um meint vanhæfi þeirra ekki borist Barnavernd Reykjavíkur.

Hafi slíkt verið gert kannar starfsfólk Barnaverndar aðstæður. Þetta segir Halldóra Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri Barnaverndar Reykjavíkur. Er þessi réttur forsjárlausra foreldra tryggður með lögum.

„Daginn sem móðirin deyr verður faðirinn forsjáraðili, með öllum þeim skyldum og réttindum sem því fylgir,'' segir Halldóra. Hún bendir á að málin flækist enn frekar sé stjúpforeldri til staðar, sem ekki hafi verið skráð í sambúð með móðurinni. Slíkt foreldri, sem jafnvel hefur alið barnið upp, á þá engan lagalegan rétt, hvorki umgengnisrétt né annað, við fráfall móðurinnar. „Þetta eru mjög viðkvæm og flókin mál," segir Halldóra.

Í Morgunblaðinu í dag fjallar Ingibjörg S. Benediktsdóttir í aðsendri grein um systurdóttur sína, sem lést vegna ofnotkunar fíkniefna nýverið. Í greininni kemur fram að afi og amma tveggja drengja hennar, hafi fengið þá í tímabundið fóstur, en við fráfall hennar hafi feður barnanna sjálfkrafa fengið forræði yfir þeim.

„Ekki vil ég halla á þá feður en þeir hafa átt við talsverð vandamál að stríða í gegnum tíðina og gátu ekki tekið við forsjá þeirra þegar móðirin var svipt forræði á sínum tíma," skrifar Ingibjörg. 

Hægt er að lesa greinina í heild sinni í Morgunblaðinu í dag.

mbl.is