Björn: Fagna niðurstöðu Ríkisendurskoðunar

Björn Bjarnason.
Björn Bjarnason. mbl.is/Sverrir

Björn Bjarnason dómsmálaráðherra fagnar niðurstöðu skýrslu Ríkisendurskoðunar þar sem tekið er undir tillögur ráðuneytisins um framtíðarskipulag lög-, toll- og öryggisgæslu á Suðurnesjum. Björn segist ekki kannast við að alvarlegur samskiptavandi hafi verið milli ráðuneytisins og lögreglustjórans.

„Það kemur mér ekki á óvart að menn séu sammála þeirri niðurstöðu sem ég hafði komist að, því hún er rökrétt þegar litið er til stöðu þessa embættis og verkskila innan stjórnarráðsins. Og hver verkþáttur falli að því ráðuneyti sem fer með málaflokkinn,“ segir Björn í samtali við mbl.is.

„Ríkisendurskoðun fellst á þessa niðurstöðu og ég fagna því að sjálfsögðu. Ég tel að hún hafi verið vel rökstudd af minni hálfu. Það var beðið um skýrslu  Ríkisendurskoðunar af forsætisnefnd Alþingis vegna þess að þingmenn töldu að það þyrfti að fá álit þriðja aðila við niðurstöðu minni sem nú hefur fengist.“ 

Kannast ekki við samskiptavanda

Fram kemur í skýrslunni að alvarlegur samskiptavandi hafi verið milli  dómsmálaráðuneytisins og lögreglustjórans á Suðurnesjum um rekstur og verkefni embættisins frá því það færðist undir dómsmálaráðuneytið. Björn segir þetta koma sér mjög á óvart.

„Ég hef ekki, held ég, rætt við nokkurn embættismann, forstöðumann stofnunar á vegum dóms- og kirkjumálaráðuneytisins, oftar heldur en Jóhann Benediktsson síðan við tókum við þessari stofnun 1. janúar 2007.“

Björn segir að dóms- og kirkjumálaráðuneytið fái á alla mælikvarða mjög góða einkunn þegar talað sé um samskipti ráðuneytisins og forstöðumanna stofnana. „Í þessu tilliti hefur ráðuneytið alveg sýnt þessu embætti, eins og öllum öðrum, þá virðingu að svara öllum erindum, lýsa skoðunum sínum og taka þátt í öllum þeim fundum sem óskað hefur verið eftir. Þannig að ég átta mig ekki á því hvað þarna er um að ræða,“ segir Björn Bjarnason.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert