Skutlið helmingi dýrara en í fyrra

Hlutfall eldsneytis í bókhaldi heimilisins hefur farið síhækkandi á undanförnum mánuðum. Bensínlítrinn hefur hækkað um 30% á seinustu tólf mánuðum, úr 122 kr. upp í 158 kr. í sjálfsafgreiðslu, og dísillítrinn um 43%, úr 122 upp í 174 krónur.

Sumir landsmenn eru farnir að gera ráðstafanir til að draga úr bensínneyslunni. Aðrir skipta í eyðslugrennri bíla og er Ólöf Magnúsdóttir, húsmóðir í Hafnarfirði ein þeirra.

Á grafinu hér til hliðar er upphugsað dæmi um eldsneytiskostnað vegna hinnar daglegu ferðar úr og í vinnu og skóla fyrir fjögurra manna fjölskyldu með einn bíl. Reiknað er með að fjölskyldan keyri 30 kílómetra á dag 22 daga vikunnar og miðað er við annars vegar eldsneytisverð 10. maí í fyrra og eldsneytisverðið í gær hins vegar.

Aki fjölskyldan á Toyota Corolla sjálfskiptum bensínbíl, hefur eldsneytiskostnaður hennar vegna þessa aksturs hækkað um 2.500 krónur, farið úr 8.500 krónum á mánuði upp í rúmar 11.000.

Sé fjölskyldubíllinn sjálfskiptur Range Rover-dísilbíll hefur eldsneytiskostnaðurinn hins vegar hækkað um fimm þúsund á mánuði og farið úr rúmum 11.500 krónum í maí í fyrra upp í um 16.500 nú.

Ólöf áætlar að þau hjónin verji um þrjátíu þúsund krónum í eldsneyti á mánuði, enda eru um tólf kílómetrar á milli vinnustaðar mannsins hennar og heimilisins.

Þau reka tvo bíla „vegna þess að ferðirnar á milli, þegar maðurinn minn kom með bílinn heim til þess að ég kæmist t.d. að versla, voru orðnar svo kostnaðarsamar að það borgaði sig að skipta yfir í tvo eyðslugrennri bíla.“ Segist hún jafnframt hafa dregið úr ferðalögum um landið og fara sjaldnar í heimsókn til foreldra sinna, en þau búa á Kópaskeri.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert