Kemur ekki til greina að hætta í Eurovision

„Ég sé enga ástæðu til þess að hætta að taka þátt. Við fengum út úr þessu sjö klukkustundir af stórkostlega skemmtilegu efni og við stóðum okkur gríðarlega vel,“ segir Þórhallur Gunnarsson, dagskrárstjóri Sjónvarpsins. Ýmsar Vestur-Evrópuþjóðir telja sig hafa verið hlunnfarnar í Eurovision í ár og kenna um nágrannavináttu og pólitískri kosningu. Terry Wogan, Eurovision-æðstiprestur Breta, heldur því til að mynda fram að Rússar hafi verið pólitískir sigurvegarar frá upphafi og að Bretar þurfi að endurskoða alvarlega þátttöku sína í keppninni.

„Fyrstu viðbrögð þegar illa gengur eru gjarnan þau að tala um að hætta að taka þátt. En hvað gerum við ef knattspyrnulandsliðið lendir í neðsta sæti í sínum riðli í undankeppni Evrópumótsins. Á bara að gefast upp?“ segir Þórhallur, sem telur að Íslendingar megi vel una við árangurinn í ár. „Mér fannst þau eiga betra skilið, en 14. sæti af 43 þjóðum er frábær árangur. Það er bara frekja að kvarta yfir því.“

Þórhallur kveðst ánægður með breytt fyrirkomulag á forkeppninni. „Með þessum hætti hreinsuðust út lakari þjóðir og fyrir vikið varð úrslitakeppnin betri.“

Á vefnum Esctoday.com er búið að taka saman hvernig úrslitin hefðu orðið ef annars vegar Vestur-Evrópa hefði ein ráðið úrslitum og hins vegar Austur-Evrópa. Hjá þeim 20 Vestur-Evrópuþjóðum sem greiddu atkvæði hefðu Grikkir staðið uppi sem sigurvegarar, Rússar hafnað í fimmta og íslenska lagið í því sjöunda. Þau Friðrik og Regína hefðu hins vegar hafnað í 23. sæti með tvö stig ef Austur-Evrópa hefði ein ráðið úrslitum, en einungis Lettar gáfu Íslandi stig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert