Tryggingafélög setja af stað viðbragðsáætlun

Vátryggingafélag Íslands, VÍS, hefur sett af stað viðbragðsáætlun vegna jarðskjálftans í dag. Er viðskiptavinum félagsins bent á að tilkynna tjón til félagsins með því að hringja í þjónustuver í síma 560-5000 eða tilkynna tjónið á næstu þjónustuskrifstofu. Einnig er hægt að fylla út tjónstilkynningu á vef félagsins www.vis.is.  

Sjóvá hefur einnig sett í gang viðbragðsáætlun sem starfað er eftir núna. Starfsfólk Sjóvá vill hvetja fólk sem hefur orðið fyrir tjóni af völdum skjálftans að hafa samband við tjónaþjónustu Sjóvá í síma 440 2000. Einnig er hægt að tilkynna tjónin á vef félagsins, www.sjova.is og eru nánari leiðbeiningar að finna þar.
 

Þá benda Tryggingamiðstöðin, Sjóvá og VÍS fólki, sem orðið hefur fyrir tjóni af völdum jarðskjálfta, á að taka ljósmyndir af skemmdunum og tilkynna tryggingafélagi sínu þær sem fyrst. Þegar málið hefur verið skoðað af tryggingafélagi ákvarða Viðlagasjóður og tryggingafélag næstu skref.

Tjón á lausafé, svo sem á innbúi og húseignum af völdum jarðskjálfta er bætt af Viðlagatryggingu Íslands. 

Ef fólk þarf að yfirgefa heimili sín er það hvatt til að skrúfa fyrir vatnsinntök og rjúfa rafstraum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert