Útihús hrundu á nokkrum bæjum

Gafl féll úr útihúsi á bænum Gljúfurárholti í Ölfusi.
Gafl féll úr útihúsi á bænum Gljúfurárholti í Ölfusi.

Útihús á bænum Krossi í Ölfusi hrundi í jarðskjálftanum og varð fé
undir. Þurfti að lóga nokkrum ám og lömbum. Öldruð kona slasaðist þegar hún fékk í gólfið og er talin hafa tognað. Var hún flutt  á sjúkrahús í Reykjavík. Skemmdir urðu á útihúsum á fleiri bæjum í Ölfusi. 

Lúðvík Haraldsson, bóndi í Krossi, sagði að hlöðuvegguirnn hefði alveg hrunið; hann var allur úr steinsteypu og veggjahæðin  fimm metrar.
Íbúðarhúsið stendur uppi en talsverðar skemmdir urðu á innbúi að sögn Lúðvíks.

Miklar skemmdir urðu á Krossi í jarðskjálftunum árið 2000 og að sögn
Lúðvíks er nýbgúið að taka það í  gegn.

Að sögn Ólafs Helga Kjartanssonar, sýslumanns í Árnessýslu, liggur ekki enn fyrir á hve mörgum húsum urðu skemmdir, en verið er að ganga í hús á Selfossi og í Hveragerði til að kanna það.

Ólafur sagði að búast mætti við að eldri hús og lakari hafi orðið fyrir skemmdum. Ekki lægju fyrir allar upplýsingar um það. Hann sagði ennfremur að gera yrði ráð fyrir að innbústjón hafi orðið í öllum húsum á Selfossi og í Hveragerði og annars staðar þar sem skjálftinn varð mestur.

Skemmdir urðu á gömlu fjósi á Gljúfurárholti í Ölfusi en þar hrundi veggur. Skemmdir urðu einnig á gömlu fjósi á Þóroddsstöðum en þar er enginn búsmali. Steypt plata undir gömlu íbúðarhúsi virðist hafa klofnað.

Við Tannastaði féll risastórt bjarg úr Ingólfsfjalli.  

mbl.is