„Ég er mjög hrædd“

Mæðgurnar Þóra Geirsdóttir og Karítas Harvey.
Mæðgurnar Þóra Geirsdóttir og Karítas Harvey. mbl.is/Golli

Þótt flestir Selfyssingar hafi áður kynnst jarðskjálftum brá þeim mjög við skjálftann í dag. Hann kom snöggt, var snarpur og langur. Rauði kross Íslands opnaði fjöldahjálparstöð á lóð Vallaskóla og þangað leitaði fólk eftir aðstoð.

„Það byrjaði allt að nötra og hrynja úr hillum. Ég rétt náði að hlaupa undan stórri hillusamstæðu. Það er allt brotið og bramlað heima,“ sagði Karitas Harvey sem fór ásamt móður sinni, Þóru Geirsdóttur, í fjöldahjálparstöðina til að leita eftir aðstoð þegar þær heyrðu sagt frá henni.

Þóru var mjög brugðið við þessa lífsreynslu og þær höfðu áhuga á að fá áfallahjálp.

„Ég er mjög hrædd,“ sagði Kartias og móðir hennar bætti því við að hún væri einnig hrædd, þótt skjálftinn hefði ekki komið eins illa við hana.

Safnast saman í garðinum

Fólk var mikið úti við á Selfossi enda var fólki ráðlagt það vegna hættu á stórum eftirskjálfta. Pólsk stórfjölskylda var í garði húss í einu af eldri hverfum bæjarins.

„Ég var í íbúð uppi á þriðju hæð í blokk. Þar duttu niður ljós og tölva féll niður,“ segir Pétur Adamsson. Þau hjónin voru ekki róleg þar inni með börnin og fóru til vinafólks og þar hópaðist stórfjölskyldan saman í garðinum.

„Við erum hrædd við að vera með börnin inni,“ segir Pétur. Húsið hækkað eða lóðin sigið Víða urðu skemmdir á innbúi og hlutum og hús skemmdust. Húsið í Þórsmörk 2 lyftist um tíu til fimmtán sentímetra nema þá að bílastæðið og gangstéttin hafi sigið.

Guðjón Guðjónsson hafði ekki enn áttað sig á stöðu mála enda vildi fjölskyldan vera sem minnst inni við. Sirrý Birgis, kona hans, var heima með tveimur unglingum og tveimur hundum. „Karl [sonur hennar] reyndi að toga mig undir borð en ég var upptekin við að gá að hundunum,“ segir Sirrý. Hundarnir urðu ekki síður hræddir en mannfólkið og þegar annar unglingurinn opnaði útidyrnar til að komast út slapp hundurinn Agnarögn út. Þau þurftu því að hlaupa út til að leita að honum og fundu fljótlega.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert