Miklar skemmdir á munum í sumarbústöðum

Mökkur stígur upp af Ingólfsfjalli í skjálftunum.
Mökkur stígur upp af Ingólfsfjalli í skjálftunum. mynd/Árni G. Sigurðarson

Stór vöruflutningabíll stóð við sumarhús í byggingu í Grímsnesinu. Bílstjórinn að hífa þungt bretti hlaðið hellum ofan af bílnum og Árni G. Sigurðarson, eigandi bústaðarins, stendur álengdar. Hann mundar myndavél og býst til að taka ljósmynd af flutningunum. Þá ríður skjálftinn yfir, rykský stígur upp af Ingólfsfjalli og Árni smellir af.

„Ég þurfti að halda mér og missti myndavélina og símann. Bílstjórinn þurfti líka að halda sér og þetta var svo kraftmikið að armarnir á krananum fóru úr slíðrinu,“ segir hann. Árni hefur eftirlit með tveimur sumarbústöðum í nágrenninu og segir að þar sé allt á rúi og stúi. Lausamunir hafi kastast út um allt.

„Það hreinsaðist út úr eldhússkápunum,“ segir Árni en að sögn hans virðast bústaðirnir sjálfir vera óskemmdir og gler í gluggum hafi ekki brotnað í þessum hamförum.

Fjórar sprungur í jörðinni

Fjórar sprungur mynduðust í jörðinni við innkeyrsluna að öðrum bústaðnum, allt að tíu sentimetra víðar. Árni segir að skjálftinn hafi verið svo kraftmikill að þungir hlutir hafi færst til, m.a. 80 kg sjónvarp í bústað hans. Alls konar munir í bústöðunum eru skemmdir eða ónýtir. „Þetta eru allt munir sem fólki eru kærir,“ segir Árni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert