Eftirskjálftar halda áfram

Víða var fólk að hreinsa til í gær.
Víða var fólk að hreinsa til í gær. mbl.is/Frikki

Eftirskjálftar hafa verið í alla nótt á skjálftasvæðinu í Ölfusi. Snarpasti kippurinn varð klukkan 5:15 í morgun, 3,5 stig á Richter, en hann  átti upptök sín  um 5 km norður af Selfossi. Í gærkvöldi urðu fjórir kippir á bilinu 3,5-4 stig á Richter.

Skjálftarnir í gærkvöldi urðu til þess að um tugur manna á Selfossi yfirgaf heimili sín og færði sig yfir í fjöldahjálparstöðina í bænum en þar var nánast tómt hús fyrir.

Ólafur Helgi Kjartansson sýslumaður á Selfossi var í vinnunni þegar skjálftarnir urðu og fann hann fyrir þeim. „Þetta er í samræmi við spá sérfræðinga sem telja afar ólíklegt að sterkir skjálftar komi á þessu svæði,“ sagði hann. „En auðvitað er ástæða til að hafa alltaf varann á, þótt ekki sé ástæða fyrir fólk til að verða mjög óttaslegið.“

Sagði hann að á meðan ástandið versnaði ekki stæði óbreytt sú ákvörðun almannavarnanefndar að aflétta hættuástandi.

Áfallahjálparteymi Rauða krossins aðstoðuðu fjölmargt fólk í gær á skjálftasvæðunum vegna áfalls af völdum meginskjálftanna á fimmtudag og voru sumir einstaklingar í miklu áfalli. Eftirskjálftar gærdagsins voru allnokkrir og reyndu mikið á taugarnar í fólki. Til dæmis um það varð einn öflugur eftirskjálfti á miðjum fræðslufundi um áfallahjálp í grunnskólanum í Hveragerði og flúði helmingur fundargesta út undir bert loft, jafnvel þótt skólabyggingin hefði verið metin örugg.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert