Fara til Strassborgar með málsmeðferðina

Jón Gerald Sullenberger og Brynjar Níelsson, lögmaður hans, í Héraðsdómi …
Jón Gerald Sullenberger og Brynjar Níelsson, lögmaður hans, í Héraðsdómi Reykjavíkur.

„Þetta eru auðvitað vonbrigði,“ segir Brynjar Níelsson, verjandi Jóns Geralds Sullenberger. „Við höfðum í frammi málsástæður sem eiginlega ekkert var fjallað um í dómnum. Ég hélt að á þeim yrði tekið því þar voru gild sjónarmið. Dómurinn fjallar ekkert um þau.“

Málinu er ekki lokið af hálfu Jóns Geralds, sem mun skjóta málinu til Mannréttindadómstóls Evrópu, hvað varðar málsmeðferð í dómnum
sem féll sl. sumar, þ.e. að ákærum á hendur Jóni var ekki vísað frá.

„Sú málsmeðferð var fyrir neðan allar hellur,“ segir Brynjar og vísar til  upphaflegrar stöðu Jóns sem vitnis í málinu. Eftir að nýr saksóknari hafi  verið settur í málinu hafi hann boðað Jón Gerald fyrir dóminn sem sakborning og spurt um sannleiksgildi þess sem hann
sagði sem vitni. Hann játaði og var ákærður í framhaldinu, en hefði hann  neitað hefði mátt ákæra hann út af fölskum vitnisburði. Brynjar
reiknar með niðurstöðu í því máli eftir tvö til þrjú ár.

Sjálfur segir Jón Gerald niðurstöðu gærdagsins mjög mikil vonbrigði fyrir sig. Hún hafi reyndar lítil áhrif á líf hans og starf í dag, en málsmeðferðin sem hann fékk fyrir dómstólum hafi engu að síður verið með eindæmum. Dómurinn sýni þó að Baugsmálið hafi aldrei verið pólitískt og að stjórnendur Baugs hafi misnotað sér félagið.

„Ég bendi fólki bara á heimasíðu mína, baugsmalid.is, þar sem það getur lesið gögn málsins og gert upp við sig hver segir satt og hver
ekki.“ 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert