Reynt að ná birninum lifandi

Ísbjörninn, sem skotinn var í Skagafirði fyrir hálfum mánuði.
Ísbjörninn, sem skotinn var í Skagafirði fyrir hálfum mánuði. mbl.is

Allt verður gert til þess að ná hvítabirninum lifandi sem er við bæinn Hraun á Skaga, að sögn Hjalta J. Guðmundssonar, sviðsstjóra náttúruauðlinda hjá Umhverfisstofnun. „Við erum í sambandi við dýragarðinn í Kaupmannahöfn og munu menn á þeirra vegum væntanlega koma að Hrauni um hádegisbilið á morgun með búr og tæki til þess að bjarga dýrinu eftir hádegi á morgun."

Að sögn Hjalta hefur lögregla verið beðin um að tryggja öryggi á staðnum og vakta dýrið þar til mennirnir koma frá Kaupmannahöfn.

„Það verður allt gert til þess að tryggja það að hægt verði að ná honum á lífi," segir Hjalti.

 Ekki liggur endanleg ákvörðun fyrir um hvert björninn verður fluttur en tveir staðir koma til greina, í sín náttúrulegu heimkynni á Grænlandi eða til Danmerkur.

mbl.is