Sendinefnd frá Katar heimsækir forseta Íslands

Forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, mun síðar í dag eiga fund með sendinefnd frá Katar sem heimsækir Ísland dagana 18.-20. júní. Sendinefndin kemur til landsins í framhaldi af opinberri heimsókn forseta Íslands til Katars í janúar síðastliðnum og í tengslum við fundi sem forsetinn átti með Amírnum, þjóðhöfðingja Katars, í síðasta mánuði.

Sendinefndin mun einnig eiga fundi með Össuri Skarphéðinssyni iðnaðarráðherra og heimsækja íslensk orkufyrirtæki og fjármálastofnanir, kynna sér starfsemi fyrirtækja á sviði orkusparnaðar og baráttunnar gegn mengun og kynna sér rannsóknir í líftækni, að því er segir í tilkynningu.

Sendinefndina skipa, auk sendiherra Katars á Íslandi, forstjóri Qatar Petroleum International sem er helsta fyrirtæki ríkisins á sviði orkuframleiðslu og fulltrúar Qatar Investment Authority sem er fjárfestingastofnun ríkisins og Qatar Science and Technology Park sem tengist Qatar Foundation en sú stofnun hefur forystu á sviði tækni, vísinda og mennta í Katar, samkvæmt tilkynningu frá forsetaembættinu.

mbl.is

Bloggað um fréttina