Dýraníðings leitað

Hvolpurinn var urðaður lifandi.
Hvolpurinn var urðaður lifandi. mbl.is/Lögreglan á Suðurnesjum

Lögreglunni á Suðurnesjum barst í dag tilkynning um hund sem hafði fundist í hrauninu skammt frá Kúagerði. Hafði fólk gengið fram á lítinn hvolp sem hafði verið urðaður lifandi og skilinn eftir.

Að sögn lögreglunnar hafði nokkrum stórum og þungum grjóthnullungum verið raðið ofan á hvolpinn svo að aðeins sást rétt í höfuð hans. Hvolpurinn, sem er líklegast af blönduðu Dobermankyni er um það bil fjögurra mánaða gamall.

Að sögn lögreglunnar var hann mjög máttfarinn og mikið bólginn og gat ekki staðið sjálfur uppi. Hnullungarnir munu hafa verið sex talsins og um 20 kg hver þeirra.

Lögreglumenn fóru með hann á dýraspítala og telur dýralæknir þar að hvolpurinn muni ná sér.
Þar sem hvolpurinn var ómerktur og er án örmerkis, er ekki vitað um eiganda.

Lögreglan biður því þá sem hafa einhverja vitneskju um málið, eða telja sig þekkja hvolpinn á meðfylgjandi myndum, að hafa samband við sig, en meðferð skepnunnar er talin vera mjög gróft brot á dýraverndarlögum.


Hundurinn gat ekki staðið í fæturna.
Hundurinn gat ekki staðið í fæturna. mbl.is/Lögreglan á Suðurnesjum
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert