Ekkert sést til bangsa

Reuters

Ekkert hefur sést til hvítabjarnar sem fólk taldi sig hafa séð við Bjarnarfell á Skaga í gær. Að sögn Stefáns Vagns Stefánssonar, yfirlögregluþjóns á Sauðárkróki, hefur þyrla Landhelgisgæslunnar flogið yfir svæðið án árangurs. Væntanlega verður leitarsvæðið stækkað þegar leit verður haldið áfram síðar í dag.

Að sögn Stefáns hefur ekki verið tekin ákvörðun um hvort leitað verður á landi. Lögreglan beina því til vegfaranda á þessu svæði að sýna aðgát, og hvetur hún fólk til þess að vera ekki á ferð á þessum slóðum að óþörfu.

Í gærkvöldi barst lögreglunni á Sauðárkróki tilkynning frá fólki, sem var á göngu við Bjarnarvötn á Skaga, um að það hefði hugsanlega séð ísbjörn við Bjarnarfell. Sá fólkið tilsýndar hvítt dýr sem hreyfði sig þunglamalega. Fólkið náði ljósmyndum af dýrinu, en þær munu þó vera nokkuð óskýrar.

Eftir skoðun myndanna og viðræður við fólkið, sem lögregla telur trúverðugt, var ákveðið að leita svæðið úr lofti. Var notast við tvær flugvélar í nótt við leitina, en þoka gerði þó leitarmönnum erfitt fyrir.


mbl.is

Bloggað um fréttina