Leit að bjarndýri stendur yfir

Ísbjörninn, sem skotinn var í Skagafirði fyrir nokkrum vikum.
Ísbjörninn, sem skotinn var í Skagafirði fyrir nokkrum vikum. mbl.is

Átta manna hópur leitar nú hvítabjarnar á þeim slóðum sem fólk taldi sig hafa séð slíka skepnu í grennd við Bjarnarfell á Skaga í gær. Þyrla Landhelgisgæslunnar leitaði án árangurs í dag og er farin suður til Reykjavíkur en lítil flugvél hefur tekið við leit úr lofti.

Einn lögreglumaður er í hópnum ásamt þremur  björgunarsveitarmönnum og fjórum skyttum.

Varðstjóri lögreglunnar á Sauðárkróki sagði að eitthvað yrði leitað fram á kvöld en enn hefði ekki sést til bjarndýra.

Í gærkvöldi barst lögreglunni á Sauðárkróki tilkynning frá fólki, sem var á göngu við Bjarnarvötn á Skaga, um að það hefði hugsanlega séð hvítabjörn við Bjarnarfell. Sá fólkið tilsýndar hvítt dýr sem hreyfði sig þunglamalega. Fólkið náði ljósmyndum af dýrinu, en þær munu þó vera nokkuð óskýrar.


mbl.is

Bloggað um fréttina