Metdagur í siglingum um Breiðafjörð

Slegið var met í fjölda farþega hjá Sæferðum í Stykkishólmi á laugardag þegar 1109 farþegar sigldu með skipum fyrirtækisins. Farnar voru fjölmargar ferðir þennan dag, bæði í Ævintýrasiglingu, Hvalaskoðun, í Flatey, og Sjóstöng en einnig sigldi Ferjan Baldur með einstaklega marga yfir fjörðinn og til Flateyjar þennan dag. 

Fram kemur í tilkynningu frá fyrirtækinu að útlit sé fyrir að ferðir í Flatey  verði vinsælustu ferðir Sæferða þetta sumarið og að hugsanlega megi rekja það til  myndarinnar Brúðguminn, sem tekin var þar. 

Einnig eru Ævintýrasiglingar fyrirtækisins vinsælar en um er að ræða náttúru- og fuglaskoðunarferð þar sem farþegar fá að gæða sér á ferskri hörpuskel beint af hafsbotni. Eru slíkar ferðir vinsælar bæði meðal einstaklinga og hópa.

mbl.is

Bloggað um fréttina