Dæmdir fyrir innflutning á kókaíni

Kókaín
Kókaín AP

Fimm karlmenn voru í Héraðsdómi Reykjavíkur dæmdir í fangelsi fyrir aðild að innflutningi á rúmum 700 grömmum af kókaíni. Einn var sýknaður. Tveir mannanna voru dæmdir í tveggja ára fangelsi, aðrir í sex til tólf mánuði.

Anton Kristinn Þórarinsson og Jón Halldór Arnarson voru báðir dæmdir í tveggja ára fangelsi fyrir þátt sinn í innflutningnum. Þeir eru 28 og 26 ára.

Rannsókn málsins stóð í rúmt ár og hófst í kjölfar þess að nafn Antons kom oft upp í öðrum rannsóknum lögreglu. Var það til þess að lögregla hóf að fylgjast með og hlera síma hans. Einnig var komið fyrir hljóðupptökubúnaði í bíl Antons.

Fyrir vikið komst lögregla á snoðir um umræddan innflutning. Rúm sjö hundruð grömm af mjög sterku kókaíni voru flutt inn til landsins í október árið 2006. Efnin voru keypt í Amsterdam en flutt í gegnum Kaupmannahöfn í tveimur sendingum. Burðardýrin voru handtekin við komuna til landsins en það voru Anton og Jón Halldór sem sáu um skipulagningu.

Anton neitaði sök í málinu frá upphafi, enginn meðákærðu bar hann sökum og ekkert vitni bar um aðild hans. Krafa ákæruvaldsins byggðist alfarið á upptökum af samtölum hans við Jón Halldór. Niðurstaða dómsins var að komið hefðu fram nægilega sterk sönnunargögn, til þess að það væri hafið yfir skynsamlegan vafa að Anton hefði átt þátt í innflutningnum.

Jón Halldór játaði sinn þátt í málinu og viðurkenndi að vera milliliður þess eða þeirra sem fjármögnuðu innflutninginn og burðardýra. Burðardýrin játuðu öll sinn þátt í málinu.

mbl.is

Bloggað um fréttina