Lágvöruverslanir hækka mest

Vörukarfa ASÍ hefur hækkað mest í lágvöruverðsverslunum undanfarnar 11 vikur eða um 4-9%. Hjá stóru lágvöruverðskeðjunum hefur vörukarfan hækkað um tæp 8% í Bónus og 6,5% í Krónunni. Hækkunin í öðrum verslunarkeðjum er á bilinu 3-4%. Mjólkurvörur,ostur og egg hækkaði mest í stóru lágvöruverðskeðjunum, í Bónus um 9% og Krónunni um 12% en hækkunin var 5-6% í Nettó og Kaskó.

Samkvæmt tölum frá Hagstofunni hefur verð á mat- og drykkjarvörum í vísitölu neysluverðs hækkað um rúm 10% það sem af er ári og þar af um tæplega 9% frá því í marsmánuði.

Brauð og kornvörur í vörukörfunni hafa á tímabilinu, síðustu 11 vikur, hækkað um 8%-11% í lágvöruverðsverslununum, að Krónunni undanskilinni þar sem hækkunin er rúm 4%. <p>Kjötvörur eru sá vöruliður sem verð sveiflast jafnan mest á milli vikna í lágvöruverðsverslunum. Þetta skýrist af því að tímabundnir afslættir eru oft veittir af þessum vörum sem veldur miklum sveiflum í verði á milli vikna.  Verð á grænmeti og ávöxtum sveiflast alla jafna nokkuð og er verð á einstaka tegundum mjög háð árstíðarsveiflum. Þetta endurspeglast í verðmælingunum en verð á grænmeti og ávöxtum í körfunni lækkaði heldur á fyrri hluta tímabilsins í þessum verslunum, að Bónus undanskildu, en hefur svo farið hækkandi á seinni hluta tímabilsins.

Drykkjarvörur í vörukörfunni hafa hækkað mest í Bónus og Krónunni um 5,5%-6,5%. Í Kaskó er verð á drykkjarvörum nánast óbreytt á tímabilinu en í Nettó nemur hækkunin 3%.

Vörukarfan hækkar um 3-4% í stórmörkuðum

Verð á vörukörfunni er mælt í þremur stórmörkuðum, Hagkaupum, Nóatúni og Samkaupum-Úrval. Fram undir miðjan maí var fremur lítil breyting á verði vörukörfunnar í þessum verslunum en eftir það tók það að síga upp á við. Í heildina hækkaði verð vörukörfunnar um 3-4% á tímabilinu.

Í Hagkaupum hækkaði verð körfunnar um 3,7% á tímabilinu frá annarri vikunni í apríl til þriðju vikunnar í júní og hjá Nóatúni um 3,8%. Í Samkaupum-Úrval hækkaði karfan um 1,4% á tímabilinu en hafði fram undir júní byrjun hækkað um 3% en lækkað svo milli síðustu tveggja verðmælinganna.

Mun minni sveiflur eru almennt í verði á kjötvörum í þessum verslunum en í lágvöruverðsverslunum en verð þeirra sveiflast samt sem áður nokkuð á milli vikna vegna tilboðsverða. Liðurinn mjólk, ostur og egg hefur hækkað um 4-5% í þessum verslunum á tímabilinu.

Verð á grænmeti og ávöxtum í körfunni lækkaði heldur á fyrri hluta tímabilsins, að Samkaupum-Úrvali undanskildu. Það fór svo hækkandi á seinni hluta tímabilsins og hefur í heildina hækkað um 12% í Nóatúni og Samkaupum-Úrval en um 5% í Hagkaupum.

Grænmeti hækkar mikið

Verðbreytingar eru skoðaðar í þremur s.k. klukkubúðarkeðjum 10-11, 11-11 og Samkaupum-Strax sem allar eru verslanir með langan opnunartíma. Verð breyttist almennt minna í þessum verslunarkeðjum í apríl og fyrri hluta maí en á seinni hluta tímabilsins. Vörukarfan hefur hækkað um 4% í öllum klukkubúðunum frá því mælingar hófust í apríl.

Brauð og kornvörur hafa hækkað um 5-6% í klukkubúðunum, nema í 10-11 þar sem hækkunin er minni, 2,5%. Mun minni sveiflur eru í verði á kjötvörum í klukkubúðunum 10-11 og 11-11 en í öðrum verslunum. Kjötvörur í vörukörfunni hækkuðu um 5% í 10-11 á tímabilinu en verð þeirra var nánast óbreytt í 11-11.

Í Samkaupum-Strax voru nokkrar sveiflur í verði kjötvara vegna tilboðsverða en verð þeirra hefur þó heldur farið hækkandi. Mjólkurvörur, ostar og egg í vörukörfunni hafa hækkað um 5-7% í 10-11 og 11-11 en mun minna, eða um 1% í Samkaupum-strax.

Grænmeti og ávextir hafa hækkað mikið í klukkubúðunum á tímabilinu, mest í Samkaupum-strax þar sem verðið hefur hækkað allt tímabilið og í heildina um u.þ.b. 20%. Sömu sögu er að segja í 11-11 en þar nemur hækkunin í heildina 12% en í 10-11 lækkaði verð á grænmet og ávöxtum á fyrri hluta tímabilsins en tók svo að hækka eftir það og hækkaði í heildina um u.þ.b.4%. Drykkjarvörur hækkuðu um 5% bæði í 10-11 og 11-11 en verð þeirra lækkaði lítillega í Samkaupum-strax í apríl og breyttist svo lítið eftir það.

Samanburður á verðkörfu ASÍ 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert