Mótmæla meðferð á flóttamanni

Samtökin AUS, Alþjóðleg ungmennaskipti, hafa sent frá sér yfirlýsingu þar sem þau mótmæla þeirri meðferð sem þau segja Paul Ramses, pólitískan flóttamann frá Kenía, hafa hlotið af hálfu Útlendingastofnunar.

Fram kemur í yfirlýsingunni að Ramses hafi komið til Íslands á vegum AUS árið 2005 og unnið hér sem sjálfboðaliði í eitt ár. Hann  hafi síðan aftur farið til  Kenía og m.a. starfað fyrir ABC barnahjálp þar. Þá hafi hann tekið þátt í stofnun skóla þar sem naut stuðnings utanríkisráðuneytisins.

Hann hafi síðan boðið sig fram fyrir hönd stjórnmálaflokks sem tapaði í kosningunum í Kenía í desember og því sé óttast um líf hans fari hann aftur til þangað.

Ramses var handtekinn í Reykjavík gær og fluttur til Ítalíu í morgun en hann millilenti þar á leið sinni hingað til lands í upphafi árs.

Segir í yfirlýsingu AUS að samtökin telji Útlendingastofnun vera að firra sig ábyrgð á manninum með því að senda hann til Ítalíu og að mun eðlilegra hefði verið að umsókn hans hefði fengið málsmeðferð hér. Hér á landi liggi fyrir ýmis gögn um pólitískar ofsóknir á hendur honum í Kenía auk þess sem tengsl hans við Ísland séu talsverð. Á Ítalíu sé ekki um neitt slíkt að ræða.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert