Fékk hnút í magann

„Ég dreif mig strax út í Eyjar og hef verið staðráðin í að takast á við þær tilfinningar sem fylgja því að húsið yrði grafið upp,“ segir Gerður Sigurðardóttir sem fyrir 35 árum flýði úr húsi fjölskyldunnar á Gerðisbraut 10 í Vestmannaeyjum ásamt eiginmanni sínum, Guðna heitnum Ólafssyni, og þremur ungum sonum.

Gerður, sem nú býr í Reykjavík, segist hafa fengið hnút í magann þegar hringt var í hana í vikunni og henni sagt að húsið væri farið að gægjast upp úr gjóskunni.

Húsið er hluti af verkefninu Pompei norðursins, þar sem hús sem lentu undir gjósku eru grafin upp og eiga að verða hluti af gosminjasafni. Að sögn Kristínar Jóhannsdóttur, aðalhvatamanns verkefnisins, verður hús Gerðar líklega allt grafið upp því það virðist vera í góðu ástandi.

Gerður segir það hafa verið mjög áhrifaríkt að koma að húsinu svo heillegu. „Við hjónin misstum nýbyggt húsið ofan af okkur og ungum börnum svo það vakna ýmsar tilfinningar á ný.“

Goslokahátíð er hafin í Vestmannaeyjum

Vestmannaeyingar halda nú upp á að 35 ár eru liðin frá goslokum í Eyjum. Vegleg og fjölbreytt dagskrá verður í boði á hátíðinni sem sett var í gær og mun standa fram á sunnudag.

Meðal atburða er kynning á fyrsta áfanga Eldheimaverkefnisins, sem er umgjörð um sýningar tengdar Heimaeyjar- og Surtseyjargosunum. Pompei norðursins er hluti af því verkefni.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert