Íbúar í Norðlingaholti afhenda borgarstjóra undirskriftir gegn áfangaheimili

Hólavað 1-11
Hólavað 1-11 mbl.is/Frikki

Íbúar í Norðlingaholti hafa safnað undirskriftum undanfarna daga gegn fyrirhuguðu áfangaheimili í Hólavaði 1-11. Alls hafa safnast um þrjú hundruð undirskriftir þar sem það er meðal annars gagnrýnt að fyrirhugað áfangaheimili hafi ekki enn verið kynnt fyrir íbúum hverfisins. Undirskriftasöfnun er nú lokið og voru listarnir afhentir Ólafi F. Magnússyni borgarstjóra í gær.

Hafsteinn Þór Eggertsson, íbúi á Hólmvaði og einn forsvarsmanna undirskriftasöfnunarinnar, segir borgarstjóra hafa tekið vel á móti þeim. „Hann lofaði að skoða málið virkilega vel. Hann sagði að velferðarráð væri að vinna í þessu og að málið sé ekki afgreitt úr borgarráði. Þetta var allt mjög jákvætt þó við hefðum helst viljað fá yfirlýsingu um að ekki verði af þessu en hann getur ekki lofað neinu,“ segir hann.

Mikil óvissa hefur ríkt um það hvort áfangaheimilið verði á Hólavaði vegna þess að húsnæðið er í eigu þrotabús og því ekki enn í hendi Heilsuverndarstöðvarinnar, sem reka á heimilið. Voru þessi mál á dagskrá fundar borgarráðs í gær en samkvæmt heimildum 24stunda voru þau tekin af dagskrá og ekki rædd.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert