Evruhugmynd ekki ný

Geir H. Haarde svarar spurningum fréttamanna í Stjórnarráðinu í dag.
Geir H. Haarde svarar spurningum fréttamanna í Stjórnarráðinu í dag. mbl.is/G. Rúnar

Geir H. Haarde, forsætisráðherra, segir að hugmynd Björns Bjarnasonar, dómsmálaráðherra, að leita eftir samningum við Evrópusambandið um að taka upp evru, sé ekki ný af nálinni og Björn hefði viðrað þetta á heimasíðu sinni áður. Geir sagðist reikna með að Evrópunefnd stjórnvalda skoði málið en taldi ólíklegt að hægt yrði að ná tvíhliða samningi um evruaðild.

Geir svaraði í dag spurningum blaðamanna vegna þeirrar umræðu, sem verið hefur um hugmyndir Björns síðustu daga. Geir sagðist telja að Evrópunefnd ríkisstjórnarinnar muni skoða þessi mál en ekkert hefði verið rætt um það, hvort íslenskir ráðamenn muni leita eftir viðræðum við yfirvöld í Brussel um evru. 

Geir sagðist sjálfur áfram vera þeirrar skoðunar, að íslenska krónan væri sá gjaldmiðill, sem best hentaði íslensku þjóðfélagi. Þá væri ólíklegt, að hægt yrði að gera tvíhliða samning um upptöku evru, svipaðan þeim sem aðild Íslands að Schengensamkomulaginu byggist á, en lítill áhugi væri fyrir slíku í Brussel.

Einnig sagði Geir að í viðræðum við forustumenn Evrópusambandsins í vetur hefði komið fram að ef Íslendingar ætluðu að taka upp evru yrðu þeir að koma til þess samstarfs gegnum aðaldyrnar, þ.e. aðild að Evrópusambandinu, en ekki bakdyr. 

mbl.is