Enn stendur toppstöðin og bíður örlaga sinna

Varaaflstöðin í Elliðaárdal
Varaaflstöðin í Elliðaárdal Morgunblaðið/Ómar

Ekkert hefur gerst í niðurrifi toppstöðvarinnar í Elliðaárdal þrátt fyrir fyrirheit þar um. Landsvirkjun afhenti Reykjavíkurborg toppstöðina ásamt þremur lóðum í Elliðaárdal til eignar í febrúar síðastliðnum með því skilyrði að borgin sæi um niðurrif stöðvarinnar. Björn Ingi Hrafnsson, fyrrum formaður borgarráðs, sagði þegar samkomulag tókst um tilfærslu eignanna í ágúst 2007 að byrja ætti á niðurrifi stöðvarinnar á næstu vikum. Ekkert bólar hins vegar á þeim framkvæmdum.

Hrólfur Jónsson, sviðsstjóri á framkvæmda- og eignasviði, segir að útboðsgögn vegna niðurrifsins séu tilbúin. „Þetta er talsvert mál og við viljum ekki fara í þetta á meðan á laxveiðitímabilinu stendur. Því höfum við ekki farið af stað með þetta verk.“

Umtalsvert verk verður að rífa stöðina þar sem hún er klædd með asbesti sem að verður að rífa með mikilli varúð vegna mengunarhættu. Mikill kostnaður mun því hljótast af niðurrifi stöðvarinnar. „Það er nú kannski ekki gott að gefa það upp nákvæmlega en það er ljóst að það mun kosta tugi milljóna,“ segir Hrólfur.

Ekki er búið að taka ákvörðun um hvenær verkið verður boðið út. Að sögn Hrólfs er enn umræða um að taka húsið til einhverra nota. „Það er samt ekkert fast í hendi með það. En ég reikna frekar með stöðin verði rifin. Tíminn sem við höfum til niðurrifsins eru desember til febrúar og því á ég frekar von á að þetta gerist í haust.“

mbl.is
Loka