Mun duga ef virkjað verður

Ný byggðalína Landsnets frá Blöndu til Akureyrar mun hafa burðargetu til að flytja orku frá hugsanlegum virkjunum í Skagafirði. Undirbúningur er hafinn að framkvæmdinni og hafa fulltrúar Landsnets fundað með sveitarstjórnum sveitarfélaganna sem línan mun liggja um. Viðræður eru einnig hafnar við landeigendur og verið er að kanna lagnaleiðir. Gert er ráð fyrir að hægt verði að taka línuna í notkun árið 2011.

Láta stórnotendur borga

Ástæða þess að ráðist er í framkvæmdina á þessum tímapunkti er sú að nauðsynlegt er að tryggja fyrirhugaðri aflþynnuverksmiðju á Krossanesi við Eyjafjörð orku. Að sögn Þórðar Guðmundssonar forstjóra Landsnets er framkvæmdin til þess fallin að styrkja landskerfið allt.

„Byggðalínan milli Blöndu og Akureyrar er elsti hluti byggðalínuhringsins og er í raun orðin flöskuháls í flutningskerfinu. Við förum í þessa framkvæmd á þessum tímapunkti til að tryggja rafmagn til aflþynnuverksmiðjunnar. Við nýtum okkur þá framkvæmd til að láta stórnotanda af þessu tagi borga sem mest af uppbyggingunni.“

Þórður segir að ný byggðalína geti annað flutningi á raforku frá hugsanlegum virkjunum í Skagafirði. „Þetta er sannarlega partur af því að auka svigrúm til að skaffa orku á Norðurlandi vestra í heild sinni, það er klárt. Þessi uppbygging eykur svigrúm til athafna og það verður þá hægt að verða við óskum um flutning á orku á svæðinu. Ef virkjað verður í Þingeyjarsýslu þá er þessi framkvæmd líka til þess fallin að hægt sé að tengja þá orku inn á netið í framtíðinni.“

Hvetja ekki til annarra virkjana

Kristján Þ. Halldórsson talsmaður Alcoa á Norðurlandi segir að fyrirtækið hafi engin áform uppi um að hvetja til virkjana í jökulsánum í Skagafirði eða í Skjálfandafljóti eins og menn hafa gert skóna. „Við höfum sagt að við gætum hugsanlega viljað nýta einhverja orku út úr landsnetinu en höfum frekast horft til Kárahnjúkavirkjunar. Það kunna að skapast tækifæri til slíks í framtíðinni.“

Þorsteinn Hilmarsson upplýsingafulltrúi Landsvirkjunnar segir engin áform uppi um virkjunarframkvæmdir, hvorki í Jökulsá eystri né vestari í Skagafirði. „Við höfum ekkert unnið að þessu undanfarið. Fyrir all löngu voru gerðar grunnrannsóknir þarna en það er það eina.“

HVAÐ VANTAR UPP Á?

Í hnotskurn
Alcoa kynnti í gær endurskoðuð drög að matsáætlun vegna Álvers á Bakka við Húsavík. Þar á að kanna hagkvæmni þess að byggja álver af sömu stærðargráðu og á Reyðarfirði. Slíkt álver hefði framleiðslugetu allt að 346.000 tonnum á ári í stað 250.000 tonnum eins og stefnt hefur verið að.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert