Höfum ekki þörf fyrir að ræða við Friðrik

Lögregla ræðir við fulltrúa Saving Iceland við höfuðstöðvar Landsvirkjunar.
Lögregla ræðir við fulltrúa Saving Iceland við höfuðstöðvar Landsvirkjunar. mbl.is/Júlíus

Snorri Páll Jónson Úlfhildarson, einn af talsmönnum samtakanna Saving Iceland, segir forsvarsmenn samtakanna ekki hafa neina þörf fyrir að ræða við Friðrik Sophusson, forstjóri Landsvirkjunar, eins og stendur. Þau vilji bara koma sjónarmiðum sínum á framfæri og geri það með aðgerðum sínum og upplýsingamiðlun.

Snorri sagði í samtali við blaðamann mbl.is fyrir stundu að samtökin vilji með aðgerðum sínum í dag kynna framkomu Alcoa gagnvart starfsfólki sínu í Honúras auk þess sem þau vilji mótmæla  virkjunaráformum fyrirtækisins í Þjórsá og samstarfi þess við Alcoa.

Friðrik greindi blaðamanni mbl.is frá því í morgun að hann hefði boðið  nokkrum forsvarsmönnum samtakanna Saving Iceland til fundar við sig á skrifstofu sinni klukkan hálf níu í morgun eftir að hópur á vegum þeirra mætti heim til hans í morgun. Það boð hafi hins vegar verið hunsað.

Skömmu síðar mætti hópur mótmælenda á vegum samtakanna í Landsvirkjun og reyndi að stöðva þar vinnu. Lögregla er á staðnum og liggja frekari upplýsingar um aðstæður ekki fyrir.

mbl.is

Bloggað um fréttina