Leitað í alla nótt án árangurs

Þyrla Landhelgisgæslunnar sést hér við leit í hlíðum Esjunnar í …
Þyrla Landhelgisgæslunnar sést hér við leit í hlíðum Esjunnar í gær. mbl.is/hag

Björgunarsveitarmenn leituðu í alla nótt að erlendum karlmanni sem gekk á Esjuna í gær klæðalaus. Leitin hefur enn engan árangur borið. Um 120 leitarmenn tóku þátt í leitinni í gærkvöldi þegar mest var, en fækkað var í leitarhópnum í nótt. Að sögn lögreglu mun leit halda áfram í dag.

Þyrlur hafa verið notaðar við leitina og sporhundar. Aðstæður til leitar í fjallinu hafa hins vegar verið erfiðar, þoka og hvasst.

Göngufólk mætti manninum, sem er á þrítugsaldri, þar sem hann gekk nakinn í um 600 metra hæð í gær. Fólkið lét lögreglu vita og í framhaldinu hófst leit. 

Föt mannsins fundust neðan við Þverfellshorn í um 200 metra hæð. Sömuleiðis fundust þar skilríki og bíll hans fannst á bílastæðinu neðan við fjallið.

Þeir sem vita um ferðir mannsins eru beðnir að hafa samband við lögregluna í síma 444 1100.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert