Þáðu ekki boð um fund með Friðriki

Friðrik Sophusson, forstjóri Landsvirkjunar,.
Friðrik Sophusson, forstjóri Landsvirkjunar,. mbl.is/Arnaldur

Friðrik Sophusson, forstjóri Landsvirkjunar, bauð í morgun nokkrum forsvarsmönnum samtakanna Saving Iceland til fundar við sig á skrifstofu sinni klukkan hálf níu. Enginn forsvarsmanna samtakanna mætti hins vegar til fundarins og segir Friðrik það sýna það að þetta fólk hafi engan áhuga á að hlusta á önnur sjónarmið en sín eigin eða ræða málin af alvöru. 

Samkvæmt upplýsingum lögreglunnar í Reykjavík voru tveir einstaklingar handteknir við heimili Friðriks í morgun þar sem þeir neituðu að veita lögreglu persónuupplýsingar.

Friðrik sagði í samtali við blaðamann mbl.is í morgun að tíu til fimmtán manns, flestir klæddir trúðsbúningum, hafi mætt heim til hans um klukkan sjö í morgun. Hann hafi verið kominn á fætur og því hafi það ekki valdið sér neinum sérstökum óþægindum. Þegar hann hafi hins vegar reynt að tala við fólkið hafi það farið að æpa og blása í flautur. Af þessu hafi hlotist ónæði fyrir aðra íbúa hússins, enda búi hann ekki í einbýlishúsi. Hann hafi því boðið forsvarsmönnum hópsins til fundar við sig á skrifstofu sinni fremur en að reyna að ná sambandi við þá í þeim hávaða sem hópurinn hafi valdið. 

„Það hefur enginn komið þannig að það er greinilegt að þau þáðu ekki boð mitt um viðræður um það sem þeim liggur á hjarta,” sagði hann. „Enda var þeim tilgangi þeirra greinilega náð að komast í fjölmiðla með trúðslátum.” 

Friðrik segir hópinn hafa afhent sér bréf sem ranglega hafi verið undirritað af „upplýsingafulltrúa" Landsvirkjunar. 

Í fréttatilkynningu frá Saving Iceland segir að hópurinn hafi afhent honum brottvísunarbréf, þar sem Friðriki og fjölskyldu hans sé gert að yfirgefa hús sitt fyrir kl. 12 í dag, vegna hagsmuna þjóðarinnar. Verði hann ekki við því, verði eignarnámi beitt.

mbl.is

Bloggað um fréttina