Erfiðleikar hjá húskaupendum

Þrjátíu og fimm prósentum fleiri hafa leitað til Íbúðalánasjóðs vegna greiðsluerfiðleika í sumar en á sama tíma í fyrra. Starfsmenn Íbúðalánasjóðs geta fryst lán um tíma ef illa stendur á vegna atvinnuleysis, veikinda eða annarra erfiðleika, þá er einnig hægt að skuldbreyta eða lengja lánstímann og lækka þannig afborganir. Á sama tíma fjölgar lánsumsóknum hjá sjóðnum lítillega.

Samkvæmt upplýsingum frá sýslumannsembættinu í Reykjavík hefur fjárnámum hjá einstaklingum ekki fjölgað miðað við árið í fyrra. Sjötíu og fjórar íbúðir hafa verið seldar á nauðungaruppboði á þessu ári sem er svipað og á sama tíma í fyrra. Oftast er minna að gera í þessu á sumrin vegna réttarhlés og sumarleyfa hjá sýslumanni. Margir óttast þó að holskeflan ríði yfir í haust eða á næsta ári þegar bankarnir endurskoða vexti á breytilegum lánum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert