Þarf að auka náttúruvöktun

Íslenskir jöklar hopa ört alla 21 öldina samkvæmt  nýrri skýrslu Vísindanefndar um loftslagsbreytingar á Íslandi en hún var unnin fyrir Umhverfisráðuneytið og kynnt í Þjóðmenningarhúsinu í dag. Gert er ráð fyrir að Langjökull geti verið horfinn með öllu um miðja næstu öld en Vatnajökull og Hofsjökull hörfi upp í hæstu tinda.

Vegna hlýnunar mun afrennsli frá jöklum aukast til muna á fyrri hluta þessarar aldar en minnka síðan eftir því sem jöklarnir minnka. Vorleysingar í ám byrja heldur fyrr og vegna aukins vatnsrennslis fæst meiri orka úr íslenskum vatnsaflsvirkjunum en gert var ráð.

Breytingum vegna hlýnunar fylgir aukin hætta á náttúruhamförum, bæði sjávarflóðum, jökulhlaupum og farglosun vegna bráðnunar jökla eykur framleiðslu kviku og líkur á eldgosum.

Þórunn Sveinbjarnardóttir umhverfisráðherra segir þessa skýrslu samhljóða skýrslu Sameinuðu þjóðanna um hlýnun jarðar. Hún segir stefnt að því að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda um helming fyrir 2050 til að bregðast við þessari þróun.  Nefnd ráðherra um leiðir til að draga úr þeirri losun skilar niðurstöðu í haust. Þá er nauðsynlegt að mati nefndarmanna að auka umhverfisvöktun til muna.

mbl.is