Ein farsímaáskrift á hvert mannsbarn

Farsímaáskriftunum hefur fjölgað hérlendis sem og fyrirtækjum sem bjóða farsímaþjónustu.
Farsímaáskriftunum hefur fjölgað hérlendis sem og fyrirtækjum sem bjóða farsímaþjónustu. Reuters

Á síðasta ári var heildarfjöldi farsímaáskrifta hér á landi 311.785 talsins. Þar af voru fastar áskriftir 175.087 og fyrirfram greidd símakort 136.698. Árið 2006 var heildarfjöldinn 284.095 áskriftir og árið 2005 voru áskriftirnar 263.628 áskriftir. Samkvæmt manntali Hagstofunnar voru Íslendingar 313.376 um síðustu áramót.

Á síðasta ári keyptu 187.323 einstaklingar farsímaþjónustu hjá Símanum (170.864 árið 2006), 118.984 hjá Vodafone (108.641 árið 2006), 4.201 hjá SKO (4.584 árið 2006) og 1271 hjá NOVA (enginn árið 2006).

Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Póst- og fjarskiptastofnunar sem beri heitið Tölfræði um íslenska fjarskiptamarkaðinn 2007. Fram kemur að miklar breytingar hafi orðið á fjarskiptamarkaðnum síðustu ár. Ný fyrirtæki hafi verið stofnuð, fyrirtæki hafi sameinast og nýjar vörur hafi komið á markaðinn. Allt hafi þetta áhrif til breytinga. Í skýrslunni eru til skoðunar þrjú síðustu ár, 2005 – 2007, og er henni skipt upp eftir fastanetinu, farsímanetinu, internetinu og veltu og fjárfestingu á fjarskiptamarkaði.

Síminn stærsta fjarskiptafyrirtækið

Í skýrslunni kemur fram að Síminn sé stærsta fjarskiptafyrirtækið  sem reki það bæði talsímaþjónustu á fastaneti og farsímaþjónustu auk internetþjónustu og breiðbandssjónvarp. Á árinu 2007 var fjarskiptanet Símans skilið frá annarri starfsemi þess og stofnað sérstakt félag um rekstur þess, Míla ehf., en bæði félögin eru í eigu Skipta hf. Vodafone er næst stærst og rekur einnig talsímaþjónustu, farsímaþjónustu og internetþjónustu.

Ódýra símafélagið ehf. (SKO) er dótturfyrirtæki Vodafone og endurselur bæði farsímaþjónustu og internetþjónustu auk netsíma. Vodafone er í eigu Teymis hf. og varð til við sameiningu þriggja fyrirtækja sem áður störfuðu á fjarskiptamarkaðnum þ.e. Íslandssími, Tal og Halló.

Hive er með internet- og talsímaþjónustu, fyrirtækin Hive og Atlassími sameinuðust á árinu 2007. Hive starfar nú undir heitinu Tal en það fyrirtæki varð til við sameiningu á Hive og SKO. Nova hóf starfsemi í lok ársins 2007 og rekur farsímaþjónustu.

Skýrslan í heild 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert