Rekstur álvers í Straumsvík tryggður til 2037

Álverið í Straumsvík.
Álverið í Straumsvík. mbl.is/Ómar

Landsvirkjun segir, að með samkomulagi, sem náðst hafi við Rio Tinto Alcan, eiganda álversins í Straumsvík, um tæknilegar endurbætur á álverinu, hækki raforkuverð og rekstur álversins sé tryggður til lengri tíma en ella eða til ársins 2037.

Rio Tinto Alcan hugðist stækka álverið um tæplega 200.000 tonna ársframleiðslu með byggingu tveggja nýrra kerskála.  Þessi áform náðu ekki fram að ganga þar sem íbúar í Hafnfirði lögðust gegn þeim þegar kosið var um skipulagstöllögu er sýndi þessa stækkun. 

Rio Tinto Alcan átti síðan í viðræðum við Landsvirkjun um orkukaup til nýs álvers sem staðsett yrði á Reykjanesi eða í Þorlákshöfn.  Þau áform voru lögð á hilluna eftir að stjórn Landsvirkjunar gerði fyrrnefnda samþykkt.

Landsvirkjun segir, að Rio Tinto Alcan sjái hins vegar fram á möguleika á að auka afkastagetu núverandi álvers án stækkunar með því að framkvæma vissar tæknilegar endurbætur á því.  Við það aukist  framleiðslugetan um allt að 40.000 tonnum á ári og aflþörfin um 75 MW.

Viðræðum sem átt hafa sér stað milli RTA og Landsvirkjunar um þetta mál er lokið með samkomulagi sem jafnframt inniheldur ákvæði um endurnýjun á eldra rafmagnssamningi og segir það afar mikilvægt. Landsvirkjun hefur ákveðið að hefja framkvæmdir við Búðarhálsvirkjun að nýju til að uppfylla samninginn og samning við Verne Holding um rafmagnssölu til netþjónabús sem fyrirtækið hyggst koma upp á Keflavíkurflugvelli.

Landsvirkjun segir einnig, að viðræður standi nú yfir um orkusölu til nokkurra fyrirtækja sem yrðu væntanlega staðsett í Þorlákshöfn. Landsvirkjun áformar að anna orkuþörf þeirra með byggingu virkjana í neðrihluta Þjórsár. Takist að ná samningum við þau munu skapast nokkur hundruð ný störf á svæðinu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert