Rúta, jeppi og sendibíll í árekstri

Þyrla Landhelgisgæslunnar lenti á Suðurlandsvegi.
Þyrla Landhelgisgæslunnar lenti á Suðurlandsvegi. mbl.is/Júlíus

Þyrla Landhelgisgæslunnar lenti nú fyrir stundu á Suðurlandsvegi í Ölfusi þar sem sendiferðabíll, jeppi og rúta með 32 innanborðs, lentu í áreksri fyrir um klukkustund. Þrír slösuðust, þar af tveir alvarlega, og hafa einhverjir verið fluttir með sjúkrabílum á sjúkrahús í Reykjavík.

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Selfossi var rútan á leið austur þjóðveginn og voru flestir farþegarnir erlendir ferðamenn. Á móts við afleggjarann að Kirkjuferjuhjáleigu nam jeppi, sem var á vesturleið, staðar og ætlaði að beygja til vinstri inn á afleggjarann. Sendibíllinn lenti aftan á jeppanum og kastaði honum á rútuna.

Ökumenn jeppans og sendibílsins slösuðust en þeir voru einir í bílum sínum. Einn farþegi í rútunni slasaðist. Verið er að gera ráðstafanir til að veita öðrum farþegum í rútunni áfallahjálp.

Suðurlandsvegur er enn lokaður en umferð er beint um Hvammsveg.

Jeppi kastaðist á rútuna. Einn farþegi í rútunni slasaðist.
Jeppi kastaðist á rútuna. Einn farþegi í rútunni slasaðist. mbl.is/Júlíus
mbl.is