Orkuveitan áfram í útrás

Orkuveita Reykjavíkur
Orkuveita Reykjavíkur mbl.is/ÞÖK

Vonast er til að þverpólitísk sátt náist um framtíð Reykjavík Energy Invest (REI) meðal borgarfulltrúa. Stjórn fyrirtækisins hefur unnið að mótun nýrrar stefnu síðan í mars, samkvæmt heimildum Morgunblaðsins.

Stefnumótunarvinnan tók mið af REI-skýrslunni, sem unnin var af þverpólitískum stýrihópi undir forystu Svandísar Svavarsdóttur. Markmiðið var að ná einnig pólitískri sátt um framtíð REI í borgarstjórn, eins og tókst í stýrihópnum.

Sú hugmynd varð ofan á að stofna opinn fjárfestingarsjóð um verkefnið REI, sem fjárfestum verði boðið að kaupa hlut í á jafnræðisgrundvelli. Sjóðnum verði síðan ætlað að fjármagna verkefnið REI.

Kosturinn við það er álitinn sá að ekki sé verið að taka meiri fjármuni út úr OR, en helsta gagnrýnin síðastliðið haust beindist að því að verið væri að taka áhættu með almannafé. Þá þykir jákvætt að útboðið verði opið öllum fjárfestum.

Ekki verður gerður einkaréttarsamningur. En nafn og þekking OR verður áfram notuð í útrásinni og metin til fjár inn í sjóðinn. Ekki verður því tekin áhætta með fjármuni almennings, heldur þeirra áhættufjárfesta sem vilja leggja fjármuni sína í verkefnið. Miðað er við að greitt verði að fullu fyrir þá vinnu sem OR leggur af mörkum til einstakra verkefna. Þá verða ekki gerðir kaupréttarsamningar af neinu tagi, en slíkir samningar ollu miklu fjaðrafoki síðastliðið haust.

Fleiri kostir til skoðunar

Að þessari vinnu hafa verið kallaðir ýmsir sérfræðingar og ráðgjafarfyrirtæki, auk starfsmanna OR og REI. Fleiri kostir hafa verið skoðaðir, þar á meðal að hvert verkefni yrði fjármagnað sérstaklega. Sú leið hefur ekki verið útilokuð og gæti hún átt við í sumum tilvikum. Sjóðaleiðin þykir fýsilegust og áformað er að flest af núverandi verkefnum og hugmyndum REI renni inn í sjóðinn, jafnvel öll.
Í hnotskurn
» Kjartan Magnússon er stjórnarformaður REI. Í stjórn sitja Ásta Þorleifsdóttir og Sigrún Elsa Smáradóttir.
» Undanfarnar vikur hefur stjórn REI kynnt niðurstöður stefnumótunarinnar fyrir borgarfulltrúum og hafa viðtökur verið jákvæðar.
» Oddvitar D og B lista hafa sagt að lausnin verði kynnt á fimmtudag í næstu viku á aukafundi borgarstjórnar.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert