Nágrannar deila um deilistofna

mbl.is/Landhelgisgæslan.

Ekki hafa náðst samningar við Grænlendinga, Færeyinga og veiðiþjóðir á alþjóðlegu hafsvæði um stjórnun veiða á djúpkarfa, úthafskarfa og grálúðu. Viðræður hafa verið milli þjóðanna um karfastofnana án þess að það hafi skilað niðurstöðu en nú verður lögð áhersla á að reyna að semja um grálúðustofninn sem er mikið ofveiddur. Samkomulag er í gildi um aðra íslenska deilistofna, vitaskuld fyrir utan makrílinn sem hefur komið sterkur inn í ár.

Íslendingar hafa ekki fengið aðild að ákvörðunum annarra strandþjóða um heildarkvóta á makríl og skiptingu hans á milli þjóðanna og hafa mótmælt þeim. Fulltrúar strandþjóðanna hittast í október til að ræða stjórnun makrílkvótans á næsta ári. Þótt veiðar Íslendinga skipti augljóslega miklu máli hefur fulltrúum héðan ekki verið boðið að samningaborðinu og engar vísbendingar um að slíkt boð komi.

Grálúðan ofveidd

Stjórnun fleiri íslenskra deilistofna er í uppnámi. Grálúðustofninn við Austur-Grænland, Ísland og Færeyjar er mikið ofveiddur og hefur minnkað á undanförnum árum. Ekki hefur tekist samkomulag um sameiginlega stjórnun.

Óformlegar viðræður eru hafnar um lúðuna og málið var rætt í opinberri heimsókn Finn Karlsen, sjávarútvegs-, veiðimála- og landbúnaðarráðherra Grænlands hingað til lands í síðustu viku. Við það tækifæri var ákveðið að skipa nefnd embættismanna frá þjóðunum til að fara ofan í málið.

Ekki hefur heldur náðst samkomulag um stjórnun veiða úr karfastofnun sem halda sig í íslensku, grænlensku og færeysku lögsögunni og veiðast einnig á alþjóðlegu hafsvæði. Djúpkarfinn á landgrunni og landgrunnshlíðum Grænlands, Íslands og Færeyja er talinn af sama stofni en er aðallega veiddur á Íslandsmiðum.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert