Skýrar öryggisreglur gilda um lokuð rými

Frá Hellisheiði
Frá Hellisheiði mbl.is/Ragnar Axelsson

Atburðarásin virðist hafa verið með þeim hætti, að mennirnir gera ásamt verkstjóra gat á gufuleiðslu. Verkstjórinn fer síðan og opnar fyrir loka til að mynda trekk í leiðslunni, en til stóð að láta loft leika um leiðsluna yfir nóttina og hefja vinnu daginn eftir. Af einhverjum ástæðum fara mennirnir engu að síður strax inn í súrefnislausa rýmið og láta við það lífið á mjög skömmum tíma. Óstaðfestar heimildir lögreglu herma að um korter hafi liðið frá því mennirnir fóru inn þar til samlandi þeirra kom að þeim látnum.

Beinist rannsóknin meðal annars að því hvers vegna þeir tóku ákvörðun um að fara inn og hvort öryggisreglum hafi verið fylgt.

Síðasta vinnuslys sem varð með þessum hætti á Íslandi mun hafa orðið árið 1997 þegar skipaeftirlitsmaður fór inn í keðjurými skips á Akureyri. Nokkrum árum þar á undan varð einnig sams konar dauðaslys í íslensku dýpkunarskipi.

Öryggisreglurnar skýrar

Í öryggishandbók Orkuveitu Reykjavíkur, sem stendur að virkjuninni, kemur sú meginregla skýrt fram að fyrst af öllu skuli lofta lokuð rými áður en vinna hefjist. Eftir það skuli þau súrefnismæld, en súrefnismælar eiga að vera til staðar hjá ýmsum aðilum á svæðinu allan sólarhringinn. Þessi regla er í samræmi við reglugerð Vinnueftirlitsins um öryggisráðstafanir við vinnu í lokuðu rými.

Bjarni Bentsson, öryggisfulltrúi Orkuveitunnar við Hellisheiðarvirkjun, segir að í verksamningum skuldbindi allir verktakar sig annars vegar til að fylgja þeim reglum sem fram koma í öryggishandbók Orkuveitunnar og hins vegar til að gera áhættumat. Það gerði verktakafyrirtækið sem mennirnir störfuðu hjá.

Þá hafi Orkuveitan látið þýða útdrátt úr handbókinni yfir á átta tungumál.

Hann segir öryggishandbókina jafnvel ganga lengra en Vinnueftirlitið geri kröfu um, þótt vissulega byggist hún í grunninn á þeim reglum.

Útlendingar í vinnuslysum

„Það verður að segjast alveg eins og er að hlutfall erlendra starfsmanna sem deyja í vinnuslysum á Íslandi er mjög hátt,“ segir Eyjólfur Sæmundsson, forstjóri Vinnueftirlitsins. Hann bendir á að í þremur vinnutengdum banaslysum í ár hafi allir verið útlendingar og frá árinu 2006 hafi sjö útlendingar látist en fimm Íslendingar.

Eyjólfur tiltekur þrjár líklegar orsakir fyrir þessari háu tíðni. Fyrst af öllu vinni útlendingar hættuleg störf, þá séu sumir þeirra frá löndum þar sem öryggisstaðlar séu ekki jafnþróaðir og loks kunni útlendingar að eiga erfitt með að komast inn í það öryggisumhverfi sem hér ríkir og þar kunni tungumálaörðugleikar að skipta máli.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert