Kínaferðir kostuðu 5 milljónir

Þorgerður Katrín skoðar verðlaunapening Sturlu Ásgeirssonar í Peking.
Þorgerður Katrín skoðar verðlaunapening Sturlu Ásgeirssonar í Peking. mbl.is/Brynjar Gauti

Kostnaður við ferðir Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur og fylgdarliðs hennar til Kína nemur alls um 5.000.000 króna sem greiddar eru af menntamálaráðuneytinu.

Þorgerður fór tvær ferðir til Peking á meðan Ólympíuleikunum stóð sem ráðherra íþróttamála. Í fyrri ferðinni, sem farin var frá 5. til 14. ágúst voru með í för Kristján Arason eiginmaður hennar auk ráðuneytisstjóra og maka hans. Flogið var um Kaupmannahöfn með Flugleiðum til Kína og var fargjald á mann 446.320 kr, eða tæpar 1,8 milljónir fyrir þau fjögur. Gistikostnaður liggur ekki fyrir þar sem reikningur frá ÍSÍ hefur ekki borist, en með dagpeningum ráðherra og ráðuneytisstjóra, sem eru 30.000 og 12.000 á dag, er heildarkostnaður fyrri ferðarinnar rúmlega 2,2 milljónir.

Þegar ljóst var að íslenska handboltalandsliðið myndi keppa í undanúrslitum var ákveðið að Þorgerður færi aftur til Peking, 9 dögum eftir heimkomuna. Ferðin stóð frá 23.-25. ágúst og með í för ráðherra voru aftur eiginmaður hennar og ráðuneytisstjóri, sem í þetta skiptið fór makalaus. Flugkostnaður þremenninganna var rúmlega 1,8 milljónir. Að viðbættum dagpeningi ráðherra í þrjá daga, 90.000 og fyrir ráðuneytisstjórann, 36.000 kostaði seinni ferðin ráðuneytið því um 2 milljónir að undanskildum gistikostnaði.

Því liggur fyrir að heildarkostnaður við ferðir Þorgerðar til Peking er u.þ.b. 5 milljónir króna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert