Verðbólgan skelfileg

Grétar Þorsteinsson, forseti Alþýðusambands Íslands, segir verðbólgutölur dagsins áframhaldandi staðfestingu á þeirri óáran sem þjóðin sé stödd í. ASÍ kallar enn eftir samstarfi við ríkisstjórnina og gagnrýnir að opinberir aðilar skuli kynda enn undir verðbólguna með því að hækka gjaldskrár sínar.

„Þetta er áframhald á þeirri óheillaþróun sem verið hefur síðustu mánuði og kemur okkur svo sem ekki í opna skjöldu, en þetta er náttúrulega bara skelfilegt, það er ekkert annað orð yfir það,“ segir Grétar.

„Það er rétt að stóri vandinn er það sem er að gerast úti í heimi, en hluti af þessu er líka heimatilbúinn vandi og það er rétt að halda því til haga. Við höfum kallað eftir samráði við stjórnvöld og viljum að menn setjist sameiginlega yfir vandann og skoði hugsanlegar leiðir.“

Markar vonandi endann á hækkunum

Hannes Sigurðsson aðstoðarframkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins segir hækkun vísitölu neysluverðs fyrirséða en að vonandi sé þar jafnframt hápunktinum náð. „Þetta var alveg viðbúið og heldur undir því sem menn höfðu búist við vegna veikingar gengis krónunnar og þeirra matvælaverðshækkana sem átt hafa sér stað í heiminum og síðan lok útsalna,“ segir Hannes.

„Það er þó vonandi að þetta marki endann á þessum háu mánaðarlegu tölum, að þetta fari hjaðnandi með haustinu og við verðum fljótlega komin niður á viðráðanlegra verðbólgustig. En það er ljóst að það hefur reynt rosalega á gengi krónunnar, að hafa fallið niður um 30% fyrr á árinu og svo sem ekki við öðru að búast þegar litið er á það að 40% af verðlaginu er af erlendum toga beint og óbeint.“

Verðbólgan mælist nú 14,5% og hefur vísitala neysluverðs því hækkað um 0,9% í ágúst.

mbl.is

Bloggað um fréttina