ESB-aðild forsenda evruupptöku

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir og Miguel Ángel Moratinos í Ráðherrabústaðnum í …
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir og Miguel Ángel Moratinos í Ráðherrabústaðnum í dag. mbl.is/Golli

Miguel Ángel Moratinos, utanríkisráðherra Spánar, telur evruupptöku Íslendinga án aðildar að Evrópusambandinu ekki koma til greina. Ráðherrann, sem er nú í opinberri heimsókn til Íslands, telur Íslendinga ekki þurfa að óttast að missa yfirráðin yfir fiskimiðunum við inngöngu í ESB. Hann lýsir jafnframt yfir stuðningi við framboð Íslands til öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna.

Moratinos átti í dag fund með Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur utanríkisráðherra og Geir Haarde forsætisráðherra, en þetta er í fyrsta sinn sem utanríkisráðherra Spánar kemur í opinberra heimsókn til landsins.

Aðspurður um hvers vegna hann teldi Íslendinga ekki geta tekið upp evruna án aðildarviðræðna vísaði Moratinos til þeirra orða Jean-Claude Trichet, bankastjóra evrópska seðlabankans, að slíkt skref væri ekki raunhæft.

Moratinos er jafnframt þeirrar hyggju að evruupptaka Spánverja hefði reynst farsæl og að gjaldmiðillinn verndaði hagkerfin fyrir miklum utanaðkomandi sveiflum, sem jafnan væri ókostur smærri gjaldmiðla.

Moratinos á sæti í stjórn José Luis Zapatero forsætisráðherra, sem komst til valda eftir kosningar sem fram fóru aðeins nokkrum dögum eftir hryðjuverkaárásirnar í Madrid í mars 2004.

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir utanríkisráðherra sagði margt hafa borið á góma í viðræðum þeirra. Hinn spænski kollegi hennar var reiðubúinn til að byggja brýr til Suður-Ameríku til að styrkja Íslendinga í framboðinu til öryggisráðsins, en Spánverjar eiga í miklum viðskiptum við álfuna.

Þá sagði Ingibjörg Sólrún spænska utanríkisráðherrann telja að ekki væri rétt að beita Rússa frekari þvingunum vegna Georgíudeilunnar, svo með því að leggja á þá viðskiptaþvinganir eins og nokkur ESB-ríkin hefðu léð máls á undanfarið. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert