Styrkirnir: Þetta er eins og að fá fæturna aftur

Pétur Óli Pétursson og Árni Johnsen færðu Ástþóri Skúlasyni vinnuvélarnar.
Pétur Óli Pétursson og Árni Johnsen færðu Ástþóri Skúlasyni vinnuvélarnar. mbl.is/RAX

Það var hamingjusamur bóndi sem tók á móti vinnuvélunum sínum á bryggjunni í Stykkishólmi um miðjan dag í gær. „Þetta er eins og að fá fæturna aftur. Það er miklu fargi af manni létt. Ég átti ekki von á því að þetta myndi fá svona farsælan endi. Nú er bara að fara með þetta beint í flekkinn,“ segir Ástþór Skúlason, bóndi á Rauðasandi, sem er lamaður eftir bílslys.

Ástþór hafði ekki lokið við að heyja þegar hann var sviptur sérútbúnum vinnuvélum sínum í ágúst síðastliðnum vegna vanskila. Við lestur frásagnarinnar í 24 stundum síðastliðinn laugardag af erfiðleikum Ástþórs ákvað Árni Johnsen alþingismaður að safna fé til þess að leysa út landbúnaðarvélarnar og það var hann sjálfur sem afhenti Ástþóri þær í Stykkishólmi í gær ásamt Pétri Óla Péturssyni, eiganda PC grafna.

„Við Pétur fórum í þetta á fullu og fengum um 10 aðila til aðstoðar. Þeir vilja ekki allir láta nafns síns getið en þeir sem ég get nefnt eru Lóðaþjónustan, N1, Vélskóflan og Bónus auk Sigurðar Karlssonar, verktaka á Selfossi.“

 Fyrir tilstilli Árna og Péturs Óla og þeirra sem þeir leituðu til safnaðist á aðra milljón króna en áður hafði Ólafur Guðmundsson, forstjóri Mjólku, greitt 1.100 þúsund krónur inn á reikning Ástþórs. „Með þessu samanlögðu hefur vandi Ástþórs núna á haustmánuðum verið leystur,“ segir Árni.

Ástþór Skúlason, bóndi á Rauðasandi
Ástþór Skúlason, bóndi á Rauðasandi mbl.is/Rax
Ástþór Skúlason, bóndi á Rauðasandi
Ástþór Skúlason, bóndi á Rauðasandi mbl.is/Rax
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert