Alþingi tryggi að þingræðum verði ekki breytt

Frá umræðum á Alþingi.
Frá umræðum á Alþingi. mbl.is/Brynjar Gauti

Stjórn Sagnfræðingafélags Íslands hefur skrifað forseta Alþingis bréf þar sem farið er fram á að Alþingi tryggi að þingmenn og starfsfólk fari í einu og öllu eftir þeim lögum sem gilda um Alþingistíðindi og líti ekki undan þegar þingmenn geri efnisbreytingar umfram þær „auðsæju og sannarlegu villur“ sem kveðið er á í lögum um þingsköp. 

Í bréfinu segir, að fjölmiðlar hafi nýlega vakið athygli á því, að við yfirlestur á þingræðu til birtingar í Alþingstíðindum á netinu hafi þingmaður breytt merkingu ummæla sem hann lét falla í ræðustól á Alþingi. Í kjölfarið hafi komið í ljós, að slík iðja sé nokkuð algeng þrátt fyrir að hún sé skýrt brot á lögum og reglum um birtingu þingskjala og –ræðna.

Í bréfinu er vísað til þingskapa Alþingis þar sem segir, að í Alþingistíðindunum megi ekkert undan fella sem þar á að standa og fram hafi komið í þinginu og hljóðupptaka ber með sér. Engar efnisbreytingar megi gera nema leiðrétta þurfi auðsæjar og sannanlegar villur. Engu megi bæta inn í Alþingistíðindin, hvort sem það varðar menn eða málefni, nema þess sé óhjákvæmilega þörf eða í því felist sjálfsögð leiðrétting. 

„Að það skuli tíðkast að þingmenn breyti efni og merkingu ummæla sinna eru slæmar fréttir fyrir sagnfræðinga og annað fræðafólks sem notar þingtíðindi sem heimildir. Það gefur auga leið að ummæli sem raunverulega féllu á þingi eru allt annars eðlis en ummæli sem þingmenn hefðu viljað hafa látið falla eftir talsverða umhugsun og sjálfsritskoðun. Þessi eðlismunur hefur grundvallaráhrif á þær ályktanir sem fræðimenn draga af þessum heimildum. Það jaðrar því við sögufölsun þegar þingmenn gera efnis- og merkingarlegar breytingar á orðum sínum í trássi við lög og reglur sem eiga einmitt að tryggja að slíkt eigi sér ekki stað," segir í bréfinu.

mbl.is

Bloggað um fréttina