Erlendir fangar sexfalt fleiri

145 fangar sitja í fangelsum landsins um þessar mundir.
145 fangar sitja í fangelsum landsins um þessar mundir.

Alls hafa 24 erlendir ríkisborgarar setið í íslenskum fangelsum á hverjum degi það sem af er árinu 2008. Um aldamótin voru þeir fjórir að meðaltali og fjöldi þeirra hefur því sexfaldast á örfáum árum. Erlendir fangar voru rúmlega tíu talsins að meðaltali á hverjum degi á árunum 1998 til 2007.

Í dag eru þeir um 130 prósent fleiri. Um er að ræða bæði þá fanga sem eru í afplánun og þá sem sitja í gæsluvarðhaldi. Af þeim 24 erlendu ríkisborgurum sem setið hafa í fangelsi hérlendis það sem af er árinu hafa átján verið í afplánun en sex í gæsluvarðhaldi að meðaltali.

Björn Bjarnason og Petras Baguska, dómsmálaráðherrar Íslands og Litháens, komust að samkomulagi í lok febrúar síðastliðins um að þeir Litháar sem dæmdir hafa verið til fangelsisvistar hérlendis afpláni í ættlandi sínu. Alls afplána fimm Litháar óskilorðsbundna dóma í íslenskum fangelsum í dag og stendur til að senda þá alla aftur til Litháens.

Föngum fjölgar enn

Í ágúst sögðu 24 stundir frá því að íslensk fangelsi hefðu að meðaltali verið fullnýtt á hverjum einasta degi það sem af er árinu 2008. Í fangelsunum eru 137 rými en 145 fangar sitja í þeim í dag samkvæmt tölum frá Fangelsismálastofnun. Þar af eru alls sautján manns í gæsluvarðhaldi. Því er tvímennt í alls sjö klefa í fangelsum landsins. Þar fyrir utan hafa 144 verið boðaðir til afplánunar án þess að hafa hafið hana. Hluti þessa hóps hefur sótt um að taka út refsingu sína í samfélagsþjónustu.

Auk þessara 144 hafa um 60 óskilorðsbundnir fangelsisdómar borist Fangelsismálastofnun til fullnustu. Því eru alls 204 dómar sem enn á eftir að afgreiða. Í ágúst voru reglur um reynslulausn fanga rýmkaðar þannig að fleirum var gert kleift að sækja um slíka eftir afplánun helmings þeirrar refsivistar sem viðkomandi var dæmdur til. Alls hafa fimm einstaklingar hlotið reynslulausn á grundvelli þeirra breytinga.

mbl.is